Kæru íbúar Flóahrepps

Í gær sendi Sveitarfélagið Árborg frá sér viljayfirlýsingu um að hefja samtal við Flóahrepp um hugsanlega sameiningu.

Mig langar að hvetja ykkur til að kynna ykkur vel kosti og galla þess að minni sveitarfélög sameinist stærri, en slíkt hefur m.a. verið rannsakað á Norðurlöndunum. Einnig mælist ég til þess að þið gefið ykkur á tal við íbúa minni byggðarkjarna í Sveitarfélaginu Árborg. Þau segja ykkur eflaust frá óréttlætinu sem fylgir því að greiða jafnt útsvar óháð búsetu, en á sama tíma verið mismunað eftir búsetu, stærsta byggðarkjarnanum í hag. Jafnframt gætu þau gefið ykkur mynd af því hvernig er að lifa við heftan aðgang að íþrótta-, sund- og tómstundaiðkun.

Þau deila eflaust þeirri tilfinningu með ykkur að búa í fjölskyldu- og náttúruvænu umhverfi, þar sem fegurð og ró haldast í hendur. En svo segja þau ykkur frá þeirri stanslausu baráttu sem þau þurfa að há við Sveitarfélagið til að öðlast áheyrn mála sinna. Til er fjöldinn allur af fundargerðum og blaðagreinum því til stuðnings. Gefið ykkur jafnframt á tal við íbúa stærsta byggðarkjarnans, sem í orðsins fylstu merkingu er að springa. Þar er viðhaldi á eignum sveitarfélagsins einnig ábótavant og ráðstöfun fjármuna skringilega háttað við uppbyggingu nýrra mannvirkja.

Ég set spurningamerki við viljann til sameiningar af hálfu Árborgar þegar áskorunin um að sinna núverandi stöðu er gríðarleg. Er vöntun á meira útsvari kannski málið? Umgjörðin sem á að byggja stoðir undir innviði sveitarfélagsins er allavega skökk.

Að því sögðu vil ég hvetja ykkur til að kynna ykkur málið vel og ef ykkur hugnast ekki hugmyndin, hafið þá hugrekki til að vernda hagsmuni ykkar.

Tinna Björg Kristinsdóttir
Íbúi í Árborg

Fyrri greinFór nokkrar veltur í Kömbunum
Næsta greinÚtisvæðið við sundlaugina í Reykholti endurnýjað