Kæru 10.928 íbúar í Árborg: Kjósum með „Nýju Árborg“ í dag!

Í dag verður kosið til sveitarstjórna um land allt. Ljóst er að mikil endurnýjun mun verða í bæjarstjórn Svf. Árborgar, a.m.k. sex bæjarfulltrúar munu koma nýir inn í bæjarstjórn nú.

Það var langt í frá einföld ákvörðun að bjóða fram krafta sína á ný í bæjarstjórn Svf. Árborgar og óska eftir endurnýjuðu umboði til að leiða sveitarfélagið í gegnum mesta umbreytingarskeið í sögu þess. Í hreinskilni sagt, að þá spurði ég mig þeirrar spurningar í upphafi þessa árs hvort að það væri þess virði að vera að standa í þessu. Eftir þó nokkra umhugsun og mörg samtöl við eiginkonu mína og vini, varð svarið við spurningunni „já“. Af hverju? Jú, af þeirri einföldu ástæðu að ég unni sveitarfélaginu mínu heitt og fannst ég verða að halda áfram að byggja upp það samfélag sem mig langar að búa í með minni fjölskyldu, samfélagi fjölbreytileikans.

Að stýra sveitarfélagi á slíkum framfara- og uppbyggingartímum krefst fórna og þrotlausrar vinnu ef metnaður er fyrir því að gera hlutina vel. Þann metnað tel ég að við sem störfuðum í meirihluta bæjarstjórnar á liðnu kjörtímabili höfum sýnt. Verkin tala. Um allt land er eftir því tekið hve vel hefur heppnast til. Umfram eftirspurn eftir húsnæði og hin fordæmalausa íbúafjölgun í sveitarfélaginu segir sína sögu um hve eftirsóknarvert það er orðið að búa í sveitarfélaginu.

Á þessum fjórum árum hef ég öðlast dýrmæta reynslu sem ekki verður frá mér tekin, ég mun búa að henni um alla tíð. Ég geri mér líka fyllilega grein fyrir því nú, eftir að hafa öðlast slíka reynslu, að það að stýra sveitarfélagi er ekki það sama og að stýra lesklúbb, þar sem skipt er um formenn annað hvert ár. Með fullri virðingu fyrir lesklúbbum.

Leyfum Nýju Árborg áfram að vaxa og dafna á forsendum sveitarfélagsins með fulltingi íbúa, en ekki fjárfesta. Kjósum með Nýju Árborg og ritum x við M á kjördag. xM fyrir Mig og þig.

Tómas Ellert Tómasson,
oddviti M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra, formaður bæjarráðs og eigna- og veitunefndar í Sveitarfélaginu Árborg.

Fyrri greinÍ ljósi sögunnar
Næsta greinÁhyggjulaust ævikvöld