Jón Vilhjálms: Engin stóryrði – ræðum möguleikana

Ég sé það í greinum í blöðum að skítkast og stóryrði eru að hefjast.

Það er ekki það sem kosið er um að mínu viti og vil ég að frambjóðendur gæti orða sinna því þeir þurfa að vinna saman að loknum kosningum, allir sem kosnir verða.

Við skulum hafa rökræður að leiðarljósi. Sjálfstæðismenn vilja ræða fasteignaskattinn og hve hár hann er hér í Árborg. Það er mikil einföldun að slá því þannig fram að hann sé hæstur hér á landinu. En – ef þeir vilja lækka skatta þarf tekjur á móti og hvaðan eiga þær að koma? Því þarf að svara um leið.

Stjórnunarkostnaður er ekki hár í Árborg miðað við sambærileg sveitarfélög. Hugsanlega má lækka hann enn meir með styttri boðleiðum og færri millistjórnendum. Hverjum á að segja upp? Því þarf að svara um leið.

Kennslan eða skólarnir er sá liður sem mest fé fer til í rekstri sveitarfélagsins. Er hægt að spara þar? Fjölga í bekkjum eða stytta skólaárið hugsanlega? Hvað þýðir það fyrir skólastarfið, nemendur og foreldra? Fáum við verri skóla, verri kennslu eða minni árangur? Því þarf að svara um leið.

Frambjóðendur þurfa að hafa það að leiðarljósi að það að reka sveitarfélag er eins og að reka sitt eigið heimili. Tekjur þurfa að duga fyrir útgjöldum. Þeir sem ekki geta rekið sitt eigið heimili eiga ekki að reka heimili fyrir aðra. Það er mín skoðun. Ef allir færu eftir því þá er okkur borgið. Við eigum að fara með fé sveitarfélagsins eins og okkar eigið fé. Ekki nota það sem áhættufé frekar en okkar eigið.

Frambjóðendur eiga að hafa það eitt að leiðarljósi að vera heiðarlegir vinnusamir og ætla ekki öðrum það sem þeir ætla sér ekki. Fara vel með fjármuni, ástunda rökræður um öll mál því það er engin skoðun svo vitlaus að ekki megi skoða hana. Það hafa allir flokkar eitthvað gott til málana að leggja og notum það besta frá hverjum og einum, óháð meiri og minnihluta.

Ég er framsóknarmaður og kýs flokk sem hefur samvinnu og félagshyggju að leiðarljósi. Það vegna þess að hann hefur ekki verið flokkur sem hefur kenningar til hægri eða vinstri sem leiðarljós heldur tekur hann það besta fá hvorri stefnu sem er. Ég treysti mínu fólki best, þeim Helga, Írisi og Birni og öllum öðrum sem á listanum er til að vinna í þessum anda. Þau hafa sýnt það í störfum sínum að þau víkja sér ekki undan erfiðum málum og kenna öðrum um.

Kjósum X-B á kjördag.

Jón Ó. Vilhjálmsson, formaður Framsóknarfélags Árborgar.

Fyrri greinUndirbúa brottflutning af gossvæðinu
Næsta greinHerjólf vantar sex milljónir frá ríkinu