Jón og Jóga fyrir okkur öll

Mín ósk er sú að fólk láti af óhróðri og illmælgi það sem eftir lifir af kosningabaráttunni um sjöunda forseta lýðveldisins. Sleppum argaþrasinu í tæpa tvo sólarhringa og beinum athygli okkar að öllu því góða sem frambjóðendur hafa fram að færa.

Minn draumaforseti er Jón Gnarr. Jón er að mínu mati djúpvitur, fjölgreindur í meira lagi. Hvað gerðist þegar Jón Gnarr var kosinn borgarstjóri Reykjavíkur fyrir hönd Besta flokksins? Hann var fremstur í flokki jafningja og stuðlaði að mannbætandi samskiptum út um alla borg. Verði Jón kosinn forseti fáum við hin sem ekki búum í borginni að kynnast og njóta gleðinnar, kærleikans og viskunnar sem þau dreifa frá sér. Jón og Jóga munu blása lífi í glæðurnar og gefa öllum landsmönnum von. Þá meina ég öllum, þvert á mannflóruna eins og hún leggur sig. Jón er bara Jón og kemur til dyranna eins og hann er klæddur, fullur af æðruleysi og samkennd með þeim sem minna mega sín. Jón veit hvernig það er að vera kalt á höndunum, vera lagður í einelti og þurfa að ýta bílnum í gang. Það veit Jóga líka. Jón skrifaði bókina 1000 kossar þar sem hann segir frá lífsreynslu konu sinnar.

Listamaðurinn Jón hefur skemmt mér og þannig gefið mér spark í einstaka lægðum lífs míns. Fóstbræður, Tvíhöfði, Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin, Bjarnfreðarson svo eitthvað sé nefnt. Rithöfundurinn Jón hefur svo sannarlega hjálpað mörgum grunnskólanemendum með útgáfu sjálfsævisögulegra bóka sinna; Indíáninn, Sjóræninginn og Útlaginn. Þetta finnst mér alvöru sjálfshjálparbækur fyrir okkur öll.

Ég þreytist ekki á að nota setninguna hans Jóns „Þó hann kunni ekki að fallbeygja danskar sagnir,“ þar sem hann leggur áherslu á hvað skiptir máli varðandi velferð og hamingju barnanna okkar og barnabarna. Barnið Jón hélt að það gæti ekki orðið neitt vegna lesblindu. Það var þá. Nú er hann auðmjúkur þjónn þjóðarinnar í framboði til forseta Íslands. Hann ætlar að leiða saman unga sem aldna þiggja ráð frá þeim sem vita það sem hann veit ekki. Einn af mörgum styrkleikum Jóns er að hann segir upphátt, ég veit það ekki. Hann er skýr í svörum. Fer ekki eins og köttur í kringum heitan graut. Menning og listir eru galfjaðrirnar hans Jóns og við þurfum svoleiðis forseta. Mér finnst það.
Amen sem stendur fyrir, það er vissulega rétt og áreiðanlegt.

Maggý Hrönn Hermannsdóttir
Höfundur er með fimm geðgreiningar og eina til tvær háskólagráður sem skipta litlu máli þegar kemur að lífshamingjunni.

Fyrri greinBúist við gasmengun á Suðurlandi
Næsta greinSnjóbíllinn Gusi afhentur Skógasafni