Jólaandinn

Tómas Ellert Tómasson.

Jólahátíðin nálgast nú óðfluga með þeim fallega jólaanda sem henni fylgir hvar trúin er iðkuð meðvitað eða ómeðvitað á sinn fallegasta hátt.

Jólaandinn, sem ekki er hægt að snerta en má finna fyrir á þessum tíma árs, veitir okkur gleði og ánægju. Gleðin og ánægjan sem skín um þessar mundir af andlitum manna og þá sérstaklega barnanna, gefur okkur von og kraft til að takast á við lífið með jákvæðu hugarfari.

Ósnertanlegur jólaandinn fyllir huga okkar og hjörtu vellíðan ásamt þeirri tilhlökkun að eiga samverustundir í faðmi fjölskyldunnar. Því miður eiga ekki allir sínar bestu stundir yfir hátíðarnar. Í þeim tilfellum koma félagslegar aðstæður og mannlegir breyskleikar oftar en ekki við sögu. Jafnt í gleði sem sorg, virðist þó alltaf einstök tilfinning fylgja jólahátíðinni.

Fjölskyldan er sú eining sem mikilvægust er í samfélaginu og allur sá tími sem með henni er varið, er tími sem vel er varið. Njótum þess að vera í faðmi hennar um jólahátíðina, spjalla, spila og hafa gaman. Yfir jólahátíðina er einnig kjörið tækifæri til að beina hugsunum sínum og bænum til ástvina sinna lífs eða liðinna og hafa í huga að við leiðarlok er tíminn með fjölskyldunni og vinum, sá tími sem verðmætastur er hverjum manni er lífið er gert upp og kvatt.

Jólaandinn gerir okkur að betri manneskjum, njótum hans og tileinkum okkur það lífsviðhorf sem jólin vekja innra með okkur og látum jólaandann einkenna líf okkar allt árið.

Fyrir hönd Miðflokksins í Árborg óska ég íbúum Sveitarfélagsins Árborgar og landsmönnum öllum gleðilegra jóla um leið og við þökkum þann hlýhug og stuðning sem okkur hefur verið sýndur á liðnu ári.

Tómas Ellert Tómasson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.

Fyrri greinKosning hafin á Sunnlendingi ársins 2018
Næsta greinStórsigur Hamars – naumt tap hjá Selfyssingum