Íþrótta- og frístundastarf í Árborg

Það eru forréttindi að vera hluti af góðu samfélagi og finnst mér í fullri hreinskilni að hér í Sveitarfélaginu Árborg upplifi maður slíkt. Hvort sem það er hjálpsemi nágranna, skóla- og frístundastarf barnanna eða þjónustulund í verslunum. Hér er fólk tilbúið að aðstoða hvert annað og gera sitt besta til að skapa öflugt samfélag.

Hjá mörgum fjölskyldum í sveitarfélaginu snýst stór hluti lífsins í kringum íþrótta- og frístundastarf barnanna. Hvort sem það eru íþróttaæfingar, leikir, skátamót, námskeið, tónleikar eða annað sem tengist starfinu þá skiptir máli að allir fái að njóta sín á eigin forsendum, til skemmtunar, heilsueflingar eða afreksstarfs.

Fjölbreytni og góð samvinna
Forvarnargildi íþrótta og frístundastarfs er ótvírætt og þar skiptir fjölbreytileikinn máli. Hér eru í boði fjölmargar íþróttagreinar, skátastarf, kórar, sumarnámskeið, listanámskeið, dans, tónlist og fleira. Ég hef fengið að starfa að þessum málaflokki innan sveitarfélagsins undanfarin 14 ár og á þeim tíma kynnst þeim ótrúlega krafti sem er innan félagasamtaka í Árborg. Markmið mitt í starfi hefur ávallt verið að efla samskipti, samvinnu og samninga á milli sveitarfélagsins og félagasamtaka. Þannig verða hlutverk allra skýr og auðveldara er að skipuleggja starfið til lengri tíma.

Frístundastyrkur til yngri barna
Frá árinu 2008 hefur Sveitarfélagið Árborg stutt við fjölskyldur með frístundastyrk. Í dag er styrkurinn 45 þúsund krónur á hvert barn í Árborg á aldrinum 5-17 ára. D-listinn í Árborg hefur ávallt talað fyrir mikilvægi íþrótta- og frístundastarfs og við teljum að halda þurfi áfram að jafna stöðu barna í sveitarfélaginu. Það er fjárfesting til framtíðar að frístundarstyrkurinn nái til yngri barna og viljum við ná því í skrefum og byrja strax að skapa aðstæður til að styrkurinn nái til 4 ára barna.

Fjölskyldan í fyrirrúmi, fjárfesting til framtíðar
D-listinn vill styðja við lýðheilsu og útivist, enda lítum við svo á að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins og því sé mikilvægt að fjárfesta í tækifærum til samveru. Við í D-listanum viljum því fjölga möguleikum til útivistar, styrkja innviði á borð við göngu-, hjóla- og reiðstíga og með því hvetja til hreyfingar, afþreyingar og samverustunda fjölskyldunnar.

Vertu með okkur í liði að skapa Árborg okkar allra – þar sem þú skiptir máli.

Bragi Bjarnason
oddviti D-listans í Árborg

Fyrri greinBergrós framlengir á Selfossi
Næsta grein153 milljónir króna til verkefna á Suðurlandi