Íris Böðvars: Stækkum Litla-Hraun

Ákvörðun ríkisstjórnar um byggingu nýs fangelsis markar tímamót í fangelsismálum þar sem biðtími eftir afplánun er allt of langur og setur alvarlegt strik í reikninginn í lífi margra.

Nú bíða yfir 200 fangar eftir afplánun og ekki þarf mikið hugarflug til að skilja að slík bið er erfið og alls óásættanleg löngu eftir afbrot, jafnvel eftir að einstaklingur hefur byggt upp nýtt líf og breytt aðstæðum sínum.

Það er mikilvægt að þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að leggja af Kópavogsfangelsi og Hegningarhús í náninni framtíð og byggja nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við nýja lögreglustöð, að ekki sé vikið frá uppbyggingu á Litla-Hrauni þar sem vandi fangelsismálastofnunar mun ekki leysast nema veruleg aukning verði á langtímaplássum fanga. Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir svo ekki verður um villst að aukinn biðtími eftir afplánun er m.a. vegna þess að dómar hafa lengst verulega.

Nú er ljóst að mörgum þykir mikið í lagst að byggja upp bæði gæsluvarðhalds- og skammtíma fangelsi í Reykjavík auk stækkunar á Litla-Hrauni. En málaflokkurinn hefur verið vanræktur um árabil og ljóst að í óefni er komið. Hins vegar má segja að sala á Kópavogsfangelsi og Hegningarhúsinu muni koma þar á móti en fjármálaráðherra hefur nú þegar heimild til sölu þessara bygginga. Það virðist í raun fáránlegt á tímum hagræðingar og sparnaðar að byggja öryggisfangelsi annars staðar en á Litla-Hrauni. Það er alltaf dýrara að reka tvær einingar sem gegna sama hlutverki og óréttlætanlegt á þessum tímum. Með uppbyggingu á Litla-Hrauni skal hafa í huga að meiri hagræðing fellst í stærri rýmum, kostnaður á hvert rými verður lægra og með því að nýta þá aðstöðu sem fyrir er helst rekstarkostnaður í lágmarki. Mikil þekking er til staðar á Litla-Hrauni sem myndi eflast og styrkjast við byggingu nýs fangelsis. Samfélagið í kringum Litla-Hraun hefur um árabil lifað í sátt og samlyndi við fangelsið og margir sunnlendingar hafa á einhverju tímabili starfað í fangelsinu. Án efa mun sveitarfélagið Árborg vera í góðu samstarfi við ríkið varðandi land undir framkvæmdina þurfi þess að koma til og allir vinna sem einn til að greiða götu framkvæmda í sveitarfélaginu.

Nokkrar útfærslur á fjármögnum nýs fangelsis eru til staðar og m.a. að einkaaðilar og eða líferyrissjóðir komi að fjármögnum verkefnisins. Heilbrigð skynsemi myndi jafnvel segja að í ljósi misjafna fjárfestinga á liðnum árum, væri fjármögnum fangelsis sem ríkið leigi og hafi kauprétt að, nokkuð áhættulítil. Margir eru um notkunina og ekki virðist neitt lát á því um ókomna tíð. Á undanförnum árum hafa ýmsir lífeyrissjóðir og fjárfestar verið tilbúnir að fjárfesta gríðarlegum upphæðum í misjafnlega áhættusöm verkefni til hagsbóta fyrir fáa hluthafa en virðast nú ekki tilbúnir að fjáfesta fyrir þjóðina. Þannig lítur það út fyrir venjulegan íbúa og Íslending. Takið þessa áhættu fyrir þjóðina. Leggið fram fjármagn. Nú er á hólminn komið og ekki má skorast undan. Nú þurfa allir að standa saman. Munið – í myrkri eru allir kettir eins á lit.

Íris Böðvarsdóttir er sálfræðingur og skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Árborg.

Fyrri greinFimm innbrot við Sogsbakka upplýst
Næsta greinÁrborg verður af tugum milljóna