Íris Böðvars: Samtal við frambjóðanda

Fyrir fjórum árum bauð ég mig í fyrsta skipti fram í sveitastjórnarkosningum með því að taka annað sætið á B-lista í sveitarfélaginu Árborg.

Á kjördag kom í ljós að fjögur atkvæði vantaði upp á sæti í bæjarstjórn. Það er þó hægt að segja að það hafi verið lán í óláni fyrir frambjóðenda blautan á bak við eyrun í pólitík að fá að taka þátt sem varamaður á kjörtímabilinu sem er að líða og nýta tímann til lærdóms og þekkingar á sveitarfélaginu, hvort sem það varðar rekstur, framkvæmdir eða innviði þess.

Ég hef áhuga á að fá að nýta þessa þekkingu með því að taka sæti í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili. Þar sem menntum mín og starfsreynsla er mikil til tengd félags- og fræðslumálum, hef ég verið svo heppin að sitja í skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins og hef þar aflað mér þekkingar á hlutum sem ég hafði takmarkaða þekkingu á áður. Vil ég þakka nefndarmönnum fyrir góða viðkynningu og samstarf sl. 4 ár.

Ég er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Selfossi 1973, er uppalin á Eyrarbakka, hef unnið á Selfossi sl. 9 ár á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og börnin mín ganga í barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ég tel mig því vel tengda öllu sveitarfélaginu. Ég hef gengt ýmsum félagsstörfum á mörgum ólíkum sviðum.

Helsta verkefni hvers sveitarfélags er að þjónusta íbúa sína. Sum af þeim verkefnum eru þó ekki einungis á hillu sveitarfélagsins heldur ríkis. Þar á meðal eru málefni aldraða. Það er öllum flokkum fullljóst að fjölga þarf dvalar- og hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu. Það er trú mín að stöðugur þrýstingur á ríkisvaldið hafi áhrif á hvar fjármagn til uppbyggingu hjúkrunarheimila lendir. Þar mega kjörnir fulltrúar hvergi hvika, ásamt því að þurfa ljúka þarf skipulagi á nýju hjúkrunar- og dvalarheimili auk bættar félagsaðstöðu fyrir aldraða í sveitarfélaginu.

Uppbygging list- og verknáms á grunnskólastigi er mér hugleikin og hef ég mikinn áhuga á að koma upp og efla slíkt starf í grunnskólum sveitarfélagsins í samvinnu við atvinnulíf og framhaldsskóla. Það er trú mín að slíkt nám myndi skila sér margfalt í betra viðhorfi til náms, minna brottfalli í framhaldsskóla og almennt sterkari vinnumarkaði á Suðurlandi til lengri framtíðar. Ég tel það mögulegt að sveitarfélagið Árborg geti þarna verið í fararbroddi á landsvísu. Ekki væri verra ef slík uppbygging gæti þrýst á byggingu verknámshúss við FSu.

Í hverju sveitarfélagi eru alltaf íbúar sem við sem samfélag viljum hlúa sérstaklega að. Að mínu mati eru það börn og ungmenni, aldraðir, fólk með fötlun og einstaklingar sem þarfnast félagslegra úrræða. Við sem erum á „besta aldri“ höfum oft betri úrræði og bakland en ofannefndir hópar. Því miður er það svo að mörg börn og ungmenni stunda ekki íþróttir eða aðrar tómstundir vegna takmarkaðra fjárráða forráðamanna. Því hefur B-listinn lagt áherslu á að hækka tómstundastyrki til foreldra upp í 25 þúsund á ári. Það er viðráðanlegt fyrir sveitarfélagið en gæti breytt talsverðu fyrir margar fjölskyldur.

Í skipulagsmálum er áhersla á uppbyggingu miðbæja í þéttbýlinu og tenging þéttbýla með göngu, hjóla og reiðstígum. Bygging hreinsistöðvar við Ölfusá er mikilvægt skref í umhverfismálum sveitarfélagsins. Langtíma áætlun um áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu væri ákjósanleg.

Með því að þjónusta íbúanna vel gerum við sveitarfélagið ákjósanlegt til búsetu. Fjölgun íbúa hefur áhrif á verslun og þjónustu og þar með atvinnumál. Einnig langar mig í tengslum við atvinnumál að bæta við að kjörnir fulltrúar þurfa að viðhalda þrýstingi á ríkisvaldið í að viðhalda uppbyggingu og rekstri á stórum vinnustöðum í sveitarfélaginu og nefni þar m.a. fangelsið að Litla-Hrauni og þjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Hér hef ég stiklað á stóru til að kjósendur geti metið áherslur mínar. Um sumt hef ég eða aðrir í framboði fyrir B-lista ritað greinar en í því greinaflóði sem flæðir yfir kjósendur er það að æra óstöðugan að ætla að lesa allar greinar og komast yfir allt efni. Því bíð ég kjósendur hjartanlega velkomna á kosningarskrifstofu B-lista til skrafs og umræðna. Kosningaskrifstofan að Eyrarvegi 15 er opin alla daga fram að kosningum og er opnunartími auglýstur í héraðsblöðum.

Íris Böðvarsdóttir, sálfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og skipar annað sætið á B lista í Svf. Árborg.