Íris Böðvars: Íþróttahetjur Árborgar

Það er fátt sem gleður þjóðarstoltið meira en gott gengi íslenskra íþróttamanna.

Að sama skapi gleður frábær árangur íþróttamanna sveitarfélaga íbúanna og styrkir samheldni og eykur ánægju og gleði yfir því að búa í sveitarfélaginu.

Nokkur sveitarfélög hafa jafnvel gert út á slíkan árangur í einstaka íþróttagreinum og ótrúleg samheldni hefur þá ríkt í kringum íþróttina og uppgang hennar. Nú er svo komið að frábær árangur íþróttafólks í Árborg getur og mun auka samheldni okkar og stolt. Þessi árangur hefur verið að byggjast upp undanfarin ár og toppar algjörlega nú þegar Ungmennafélag Selfoss á lið í Pepsi-deild karla í fótbolta sem og efstu deild karla í handbolta. Einnig hefur árangur fimleikadeildar verið stórkostlegur og frjálsíþróttafólkið er í fremstu röð. Það er varla hægt að taka árangur einstakra deilda út þar sem flestar deildir eiga íþróttafólk í fremstu röð. Sex deildir hafa fengið viðurkenningu sem fyrirmyndadeildir innan ÍSÍ og gæti slíkt vera einsdæmi á landinu innan eins ungmennafélags. Bæjaryfirvöld hafa verið að styrkja þessa starfsemi með uppbyggingu á íþróttaaðstöðu og er nú unnið að byggingu stúku við knattspyrnuvöllinn og uppbyggingu frjálsíþróttavallar en aðstaða fyrir frjálsíþróttafólk hefur ekki verið nógu góð.

Bygging reiðhallar í sjálfboðavinnu við Brávelli mun verða mikil lyftistöng fyrir hestamenn á félagssvæði Sleipnis og þá ekki síst fyrir æskulýðsstarf, námskeið og kennslu sem mun gera hestamenn okkar að betri íþróttamönnum og eiga meiri möguleika á árangri á landsvísu. Til að koma til móts við hestamenn hafa bæjaryfirvöld gefið lóð undir reiðhöllina, fellt niður gatnagerðargjöld og verið í samstarfi með lagningu fráveitu.

Samvinna skilar árangri
Þessi stórkostlegi árangur í íþróttastarfi Árborgar er ekki tilkomin á stuttum tíma. Þetta er áralangt starf foreldra, þjálfara, frumkvöðla og annarra sjálfboðaliða í íþróttinni. Margir sem vinna við þjálfun íþrótta nú, stigu sín fyrstu spor fyrir meira en einum eða tveimur áratugum við íþróttaiðkun og bera þess merki nú að vilja veg íþróttamanna sem mestan í sveitarfélaginu Árborg. Ekkert af þeim árangri sem nú er til staðar væri tilkomin ef ekki hefði verið fyrir samheldni og vinnu þessara hópa. Undirrituð á tvö ung börn sem fara fljótlega að stíga sín fyrstu skref í íþrótta- og tómstundastarfi, beri þau hug til þess og þá verður undirrituð vonandi hluti af þessari heild og getur lagt kraft sinn á vogarskálina.

Til að koma til móts við þennan hóp er mikilvægt að mynda samfellu í skóla og íþrótta- og tómstundastarfi þannig að samræmi myndist og að ungt íþróttafólk í grunnskóla sé ekki á sífelldum ferðum fram og til baka frá heimili og íþróttastarfi eftir skóla. Þetta myndi létta verulega á forráðamönnum og minnka álag á börnin sem væru þá komin til síns heima í ró og næði með fjölskyldunni eftir að skóla og öðru starfi lyki. Það er mikilvægt að þessi samfella sé í öllu sveitarfélaginu og ferðir strætó frá Eyrarbakka og Stokkseyri séu tengdar æfingum á Selfossi svo öll börn í sveitarfélaginu Árborg hafi sama aðgang. Það gerir okkur öflugri að fá sem flesta að íþróttastarfinu.

Það er spennandi íþróttasumar framundan í Árborg og á næstu árum. Landsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi 2013 og búið er að samþykkja að sækja um unglingalandsmót 2012. Það verður óneitanlega gaman að fylgjast með gangi Selfoss í knattspyrnunni og hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á völlinn í sumar og styðja við liðið. Góður heimavöllur með öflugu stuðningsliði hefur áhrif og getur fært stig sem skipta sköpum í baráttunni. Ekki má svo gleyma því að rannsóknir hafa sýnt að öflugt íþróttastarf er hluti af forvörnum og hefur mikið gildi í vellíðan barna og ungmenna. Gott íþróttastarf sem allir hafa jafnt aðgengi að mun styrkja börn okkar og fjölskyldur í heild og gera sveitarfélagið Árborg enn betra.

Íris Böðvarsdóttir.
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Árborg.