Ingibjörg Snorra: Ég býð mig fram til Stjórnlagaþings!

Ég býð mig fram til Stjórnlagaþings og hef kynnt mér bæði stjórnarskrána sjálfa og þær tillögur að breytingum sem liggja fyrir sbr. heildarendurskoðun frá febrúar 2007.

Velferðarmál skipta mig miklu máli, sem og mannréttindi. Ég er sammála þeim sem vilja hafa endaskipti á stjórnarskránni og hafa mannréttindi fremst, enda er það í anda nútímans.

Hafa verður í huga að Stjórnarskrá Íslands er að stofninum til frá 1874 og hefur margt breyst frá þeim tíma. Að mínu mati þarf að nútímavæða hana og gera hana skýrari og skilmerkari hvað margt varðar. Einnig vantar margt inn í hana, má nefna að ekkert er talað um íslenska tungu, hvað þá íslenskt táknmál. Hvergi er neitt um umhverfisvernd eða auðlindir þjóðarinnar.

Ég vil að komi skýrt fram í stjórnarskrá, ábyrgð ráðherra og ríkisstjórnar og tel að skýra megi hlutverk forseta og valdsvið gagnvart ríkisstjórn, en vil ekki leggja embættið niður. Ég vil landið sem eitt kjördæmi og tel að stjórnarskráin eigi að mæla fyrir um jafnrétti óðháð kynhneigð. Endurskoða þarf “kaflann” um mannréttindi og stjórnarskráin segir fátt um sveitarfélög annað en að einhver sveitarfélög skuli vera til?! Skrítin staðreynd er að hvergi í stjórnarskránni koma fram orðin: lýðræði, þingræði, ríkisstjórn eða hæstiréttur.

Ég vil engar öfgar í endurskoðun á stjórnarskránni, því ég ber virðingu fyrir henni og því sem hún stendur fyrir og vil geta gert það áfram. Ég er ósköp venjulegur íslendingur sem ber hag lands og þjóðar fyrir brjósti, er ópólitísk, með ákveðnar skoðanir, engin hagsmunatengsl, bjartsýn að eðlisfari og vil láta gott af mér leiða og taka þátt í þessu verðuga verkefni, sem endurskoðun á Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands er.

Hér hef ég minnst á það helsta sem ég vildi geta breytt og mun beita mínum kröftum eftir bestu getu fái ég kjörgengi til þess. Ég trúi að allt sé hægt sé viljinn fyrir hendi.

Ingibjörg Snorradóttir Hagalín, frambjóðandi nr. 8034.