Hvað get ég gert í sumarfríinu til að örva málþroska barnsins míns?

Góð ráð til foreldra leik- og grunnskólabarna

Núna þegar leikskólabörn og grunnskólabörn eru komin í sumarfrí frá skólunum sínum er samvera fjölskyldunnar mjög mikilvæg. Foreldrar þurfa ætíð að vera meðvitaðir um að styðja við málþroska barna sinna. Hér koma nokkur ráð og skemmtilegar hugmyndir að leikjum sem styðja við málþroska barna:

Almenn ráð:
Nýtið frumkvæði barnsins að samskiptum þegar barnið kemur til ykkar og hefur samræður eða spyr, gefið ykkur tíma til að spjalla við það.

Verið góðir hlustendur og gefið ykkur tíma í samskiptin með því að færa ykkur í hæð barnsins, hlusta, gefa gott augnsamband og bregðast við því sem barnið segir.

Setjið orð á hversdagslegar athafnir og allt sem fyrir augu ber, t.d. „Nú ætlum við að finna til sundfötin áður en við förum í sundlaugina“ eða „Mikið er þetta sólríkur dagur“ útskýrið flókin eða margræð orð og hugtök eftir þörfum.

Lesið fyrir barnið eða hlustið saman á hljóðbækur. Samverustundir með góðri bók hafa mikla þýðingu fyrir málþroska barnsins og leggja grunn að lestrarnámi þess og læsi. Barnið heyrir hvernig málið er notað, hljóm þess og áherslur. Gott er að hafa fasta lestrarstund á hverjum degi t.d. áður en farið er að sofa. Segið barninu hversu gaman þið hafið af lestrarstundunum og látið það finna að þið hafið ánægju af lestrinum með því. Lesið fyrir barnið af áhuga. Ræðið við barnið um það sem er að gerast í sögunni, hvað er að gerast á myndunum og leyfið barninu að geta upp á því sem gæti gerst næst í sögunni. Rímrunur og þulur geta einnig verið skemmtileg tilbreyting í lestrinum.

Passið að allt afþreyingarefni sem barnið horfir á eða notar sé fyrst og fremst á íslensku. Þegar barnið fær skjátíma er gott að horfa með því á efnið, ræða um það sem horft er á og spyrja það út úr.

Leikskólabörn:

Í hvert skipti sem barnið notar bendingar eða aðrar leiðir til að tjá sig skulið þið svara frumkvæði þess og leggja því orð í munn. Ef það bendir á mjólk segið þá ,,mjólk? Viltu mjólk? Ég skal hella mjólk í glasið þitt“ í staðinn fyrir að bregðast orðalaust við.

Til að auka við mál barnsins og lengja setningar þess endurtakið þið orð þess og bætið við, t.d. ef barnið segir „bíll“ þá svarið þið t.d. „já þarna er stór rauður bíll“„stóri, rauði bíllinn keyrir hratt“ „hvernig bíll finnst þér flottastur?“

Endurtakið rétt það sem barnið segir vitlaust. Ef það segir ,,þarna eru tvær konar“ þá endurtakið þið leiðrétt með því að segja t.d. ,,já einmitt þarna eru tvær konur“. Barnið fær þá jákvæða endurgjöf og heyrir leiðrétt það sem það sagði sjálft.

Æfið barnið í að fara eftir fyrirmælum. Hægt er að raða upp dóti á gólf eða borð og biðja barnið að sækja ákveðna hluti eða gera eitthvað sérstakt við þá t.d. „sæktu rauða boltann og settu hann undir borðið“. Mikilvægt er að aðlaga fyrirmælin að getu barnsins og hafa þau stutt og skýr til að byrja með og lengja eftir því sem færni eykst t.d. „settu sand og steina í bláu fötuna með gula handfanginu“

Farið í hlutverkaleiki líkt og búðarleik, bílaleik eða dúkkuleik með barninu til að vinna með margskonar orð og setningagerðir t.d. „hvað vilt þú kaupa í búðinni í dag?“ eða „ísinn kostar þrjár krónur“. Einnig er hægt að æfa eintölu og fleirtölu orða t.d. „má ég fá tvær kökur?“ eða „ég er með tvær gröfur“, fallbeygingar orða t.d. „mín dúkka kom í heimsókn til þinnar dúkku“ eða stigbreytingu lýsingarorða t.d. „guli steinninn er lítill, hvíti steinninn er minni og grái steinninn er minnstur“.

Æfið endurtekningu setninga með því að fara í hermikrákuleik þar sem barninu er fyrst gefið stakt orð sem það á að endurtaka, en smám saman lengjast orðin og verða að einföldum eða flóknum setningum.

Það er skemmtilegt að spila saman í sumarfríinu. Samstæðuspil, myndalottó og þess háttar myndaspil eru notuð til að auka orðaforða og setningamyndun en þá er mikilvægt að nefna hluti á myndinni með heilum setningum t.d. „ég fékk stígvél, stígvélið mitt er gult“. Krefjið barnið um hið sama í stað þess að segja: „hvað er þetta?“

Krakka Alias er kjörið myndaútskýringaspil til að efla orðaforða, málskilning og máltjáningu eldri leikskólabarna. Útskýrið myndirnar án þess að sýna þeim þær eða segja orðið sem verið er að útskýra, notið samheiti, andstæður, vísbendingar, hljóð o.fl. til útskýringar. Skiptist á að útskýra. Hægt er að útfæra leikinn með hlutum úr umhverfinu og setja þá í poka eða koddaver og útskýra án þess að sýna hlutinn.

Grunnskólabörn:
Lestur skiptir gríðarlegu máli fyrir málþroskann því hann eykur orðaforða, málskilning, málfræði og setningauppbyggingu hjá börnum. Mikilvægt er að viðhalda lestri grunnskólabarna í sumarfríinu með nýjum spennandi og skemmtilegum bókum sem hæfa aldri og þroska þeirra. Margar rannsóknir sýna að börn sem lesa á sumrin koma sterkari til leiks þegar grunnskólinn byrjar aftur á haustin. Þau börn sem lesa ekkert í sumarfríinu þurfa allt að 6-8 vikur í upprifjun og dragast þannig aftur úr jafnöldrum sínum. Hægt er að finna hina ýmsu staði til að lesa á t.d, í skógarrjóðri, niður í fjöru, úti á palli eða svölum, á sundlaugarbakkanum eða á ströndinni.

Einnig er mikilvægt að foreldrar haldi áfram að lesa fyrir barnið eins lengi og mögulegt er. Með því að lesa fyrir það er verið að bæta málfar barnsins og stuðla að almennum þroska. Eftir því sem barnið verður eldra geta samræður um efni barnabókanna orðið innihaldsríkari og hægt er þá að spjalla um valin orð til að auka orðaforðann.

Á löngum ferðalögum getur verið gaman að fara í allskonar leiki sem reyna á málið. Leikir eins og „Nefndu…“ er hægt að útfæra á ýmsa vegu t.d. að nefna ákveðna flokka eins og „Nefndu 10 ávexti/lönd/farartæki…“, „Nefndu 10 orð sem byrja á B“, „Nefndu 5 hluti sem eru stærri/minni/fljótari en hestur“ eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug. Einnig er hægt að láta barnið keppa við sjálft sig með því að nefna eins marga flokka eða orð á 30 sekúndum, halda skráningu yfir frammistöðuna og prófa að bæta árangurinn.

Annar sígildur leikur á ferðalögum er „Ég sé…“ sem er frábær leikur til að auka einbeitingu, hlustun og örva hugsun. Þið skiptist á að segja t.d. „Ég sé eitthvað sem er brúnt og hneggjar“ eða „Ég sé eitthvað gult“ og aðrir þátttakendur í leiknum giska á hvaða fyrirbæri er um að ræða.

Að lokum:
Munið að þið foreldrar eruð besta málfyrirmynd barnsins og gegnið lykilhlutverki þegar kemur að málörvun barna ykkar. Þau læra grundvallaratriði tungumálsins í samskiptum við aðra og því er mikilvægt að þau fái mörg tækifæri til þess.

Njótið sumarsins,
Margrét Guðmundsdóttir,
talmeinafræðingur

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys á Þrengslavegi
Næsta greinKassabílar brunuðu yfir nýju brúna