Hvað er málþroskaröskun?

Dagur málþroskaröskunar (e. Developmental Language Disorder) er haldinn hátíðlegur í dag föstudaginn 14. október. Dagurinn er mikilvægur vitundarvakningu málþroskaröskunar (DLD) því þrátt fyrir að vera algeng röskun sem hefur áhrif á nær allt daglegt líf eru enn margir sem hafa ekki heyrt hennar getið og spyrja sig, hvað er málþroskaröskun?

Málþroskaröskun er meðfædd röskun af líffræðilegum toga en einkenni hennar birtast strax á máltökuskeiði og fylgja einstaklingum ævilangt. Röskunin snertir allt sem viðkemur tungumálinu hvort sem það er í tali, riti eða táknum. Erfiðleikarnir birtast þegar einstaklingur reynir að tjá hugsanir sínar og/eða skilja það sem aðrir tjá. Birtingarmyndir málþroskaröskunar eru einstaklingsbundnar en oft einkennast þær af rýrum orðaforða, erfiðleikum við að fylgja fyrirmælum, rangri setningaskipan, málfræðivillum, ruglingslegri frásögn og erfiðleikum við að muna nöfn og ný orð. Barn með málþroskaröskun fylgir ekki aldursbundnum viðmiðum um málkunnáttu og með hækkandi aldri og auknum mállegum kröfum dregst það óhjákvæmilega meira aftur úr ef ekkert er aðhafst.

Málþroskaröskun er vandi sem engin skyndilausn dugar við en með því að greina vandann og vinna markvisst með hann er hægt að hjálpa börnum að halda í við jafningja sína og auðvelda þeim að tjá sig í leik og starfi. Í því skyni hafa rannsóknir ítrekað sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, því fyrr sem er gripið inn í því meiri árangur næst. Því er mikilvægt að börn sem glíma við málþroskaröskun fái viðeigandi aðstoð svo talmeinafræðingar geti kortlagt bæði veik- og styrkleika barnsins, útbúið úrræðalista fyrir heimili og skóla og veitt barninu markvissa einstaklingsmiðaða talþjálfun til að hjálpa því að fást við þær mállegu kröfur sem fylgja hversdagslegu lífi. Því þegar kemur að því að styðja við börn með vanda þarf allt umhverfi barnsins að leggjast á eitt til að hámarka árangur.

Málþroskaröskun er ekki tilkomin af ónægri málörvun í frumbernsku en foreldrar og starfsfólk leik- og grunnskóla eru þó í lykillhlutverki þegar kemur að því að örva málþroska barna með málþroskaröskun. Fyrir barn með málþroskaröskun hjálpar að endurtaka leiðrétt það sem barnið segir rangt, einfalda mál og útskýra flókin orð, spyrja hvort barnið skilji og kenna því að láta í ljós þegar það skilur ekki, hafa sem flest myndrænt og/eða sjónrænt, veita endurtekningar og ávallt að ná athygli barnsins áður en talað er við það. Með því að baða börn í tungumálinu, nýta allar dauðar stundir til samskipta, nota fjölbreyttan orðaforða, útskýra merkingu orða, nota orð í mismunandi samhengi, spyrja út í orð og fá börn til að æfa sig að tjá sig erum við að styðja við málþroska. Til er aragrúi af skemmtilegum spilum, leikjum, verkefnum og bókum á íslensku sem þjálfa alla þessa þætti og yfirleitt leynast þessi verkfæri í einhverri mynd á flestum heimilum. Að spila dæmigert samstæðuspil getur kennt börnum grunnboðskipti, að bíða og gera til skiptis, auk þess sem það eflir orðaforða, rökhugsun og minni.

Málþroskaröskun er dulin, hún sést ekki utan á fólki og því þarf að vera á varðbergi fyrir einkennum hennar. Rannsóknir sýna að einn af hverjum 14 glímir við málþroskaröskun og er hún því algengari en einhverfa og svipað algeng og ADHD en er þó mun minna þekkt. Með aukinni fræðslu og vitundarvakningu öðlumst við meiri skilning og þekkingu á þeim takmörkunum sem fylgja málþroskaröskun og jafnframt hvað við getum gert í daglegu lífi til að draga úr áhrifum hennar.

Berglind Jónsdóttir
Höfundur er talmeinafræðingur hjá skólaþjónustu Árborgar og Talþjálfun Suðurlands

Fyrri greinSterk liðsheild skóp góðan sigur
Næsta greinÍshellan hefur sigið um 15 metra