Hvað á ég að gera við barnið mitt?

Hólmfríður Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi, missti þingsæti sitt í dag eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend

Það er mikið áhyggjuefni fyrir margt foreldrið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Svo þungt hvílir þetta á foreldrum að fæðingarorlofið verður gjarnan undirlagt áhyggjum af því hvað tekur við og getur þannig skert gæðastundir milli foreldris og barns og ollið kvíða. Dagforeldri er ekki alltaf í boði og þá tekur við púsluspil milli foreldra, ættingja og stundum vina með tilheyrandi skipulagi og jafnvel skutli.

Ekkert barn ætti að þurfa að ganga í gegn um slíka óvissu með foreldrum sínum en svo er oft raunin þegar fæðingarorlofi lýkur og foreldri/ar þurfa að mæta til náms eða vinnu og standa sína vakt. Í heimi þar sem jafnrétti er lykilatriði, bæði jafnrétti foreldra til að sækja sér menntun eða vinna að starfsframa og barns til að umgangast foreldra sína jafnt, já eða ef aðeins eitt foreldri er til staðar, er lykilatriði að hægt sé að reiða sig á leikskóla að fæðingarorlofi loknu. Það er mikilvægt að þegar barn fer úr fullri umsjá foreldris eða foreldra þá komi fagaðilar að umönnun þess og uppeldi enda leikskólakennarar með til þess gerða menntun og færni þegar að hvoru tveggja kemur.

Um allt land starfar virkilega hæft starfsfólk í leikskólum sveitarfélaganna og þar ætti að fara vel um hvert barn um leið og foreldrar geta gengið frá því vísu að það dýrmætasta sem þau eiga er í góðum höndum. Það gerir nám og störf auðveldara og dregur úr áhyggjum og streitu hvað varðar hvernig dekka á næsta dag eða viku.

Þá komum við að því sem við mörg tölum um núna, að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla sem er fjölskyldufólki hvað hugleiknast er ég viss um. Leikskólar eru á forræði sveitarfélaga og aðkoma ríkisins fólgin í setningu laga og reglugerða sem og útgáfu aðalnámskrár leikskóla.

Hvað getur ríkið því gert til að koma að brúun þessa umrædda bils sem er mis langt hjá sveitarfélögum? Sum sveitarfélög geta tekið inn ársgömul börn í leikskóla meðan önnur geta það ekki fyrr en börn eru jafnvel orðin tveggja ára. Þá hefur heilt ár farið í að brúa þetta bil hjá foreldri/um. Gefum okkur að ríkið komi að stuðningi við sveitarfélög út frá fjölgun barna umfram íbúaspá. Það er að sveitarfélög þar sem íbúum fjölgar hvað mest og hraðast með tilheyrandi aukningu í þjónustu og uppbyggingu innviða geti sótt styrki til uppbyggingar leikskólaþjónustu. Þá gætu sveitarfélög ráðist í byggingu leikskóla með styrkjum frá ríkinu og þannig brugðist við hraðar en ella og tryggt að öll börn fái leikskóladvöl þegar fæðingarorlofi lýkur.

Það er forvarnar- og lýðheilsumál að létta þessu áhyggjum af foreldrum og einnig réttindi hvers barns samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að gera það sem börnum er fyrir bestu, huga að lífi þeirra og þroska og að þau njóti faglegarar umönnunar utan fjölskyldu (3., 6. og 20. grein)

Hólmfríður Árnadóttir
oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi

Fyrri greinAlmannahagsmunir ofar sérhagsmunum
Næsta greinTinna Sigurrós framlengir