Húsnæðismál ungs fólks

Húsnæðisvandi ungs fólks er mikill, dýrt er að leiga íbúðir á frjálsum markaði og oftar en ekki þarf að reiða fram háar tryggingafjárhæðir til að festa sér leiguíbúð.

Iðulega eru leiguíbúðirnar einnig á sölu og fylgir því bæði óvissa og ónæði. Tíðir flutningar einkenna því líf þeirra sem treysta á leigumarkaðinn á Íslandi. Hvað er til ráða?

Ekki reynist einfaldara að kaupa sér fasteign. Það þarf að eiga fyrir útborgun og standast greiðslumat. Mjög algengt er að ungt fólk í dag gangi menntaveginn, klári stúdentspróf, iðnnám og eða háskólanám og eru þar af leiðandi jafnvel ekki komin inn á vinnumarkaðinn fyrr en milli 25 og 30 ára. Þeir nemar sem taka námslán á meðan á námi stendur geta jafnvel ekki unnið almennilega fyrir sér á sumrin því það bitnar á lánsupphæð næsta árs.

Spurningar okkar til þingmanna suðurkjördæmis eru þessar:

Hvernig á ungt fólk í dag að fara að því að koma sér upp heimili?

Eru einhverjar tillögur uppi á borði hjá ríkisstjórninni um þennan málaflokk?

Til að sjá hvort hægt er að finna einhverja mögulegar lausnir og/eða tillögur hafa undirritaðar opnað Facebook hóp þar sem rætt er um húsnæðismál ungs. Hópurinn heitir einfaldlega Húsnæðismál ungs fólks og hvetjum við alla sem áhuga hafa á að blanda sér í umræðuna, eða fylgjast með, að bæta sér í hópinn

Alexandra Lind Elínardóttir, Elín Grétarsdóttir og Guðbjörg Þóra Sigurðardóttir, nemar í uppeldis- og menntunarfræði víð Háskóla Íslands