Hugleiðingar á nýju ári

Í amstri hversdagsins og í því hraða samfélagi sem við búum í getur verið erfitt að finna jafnvægið milli vinnu og einkalífs. Að vilja gera sitt besta í öllum þeim hlutverkum sem hver einstaklingur tekur sér fyrir hendur getur reynst þrautinni þyngri. Vinnan og heimilið skipar hvort um sig veigamikinn sess í lífi okkar og hefur áhrif á vellíðan okkar og lífsgæði. Það má því segja að jafnvægið milli vinnu og einkalífs sé eitt af mikilvægustu verkefnum sem fjölskyldufólk stendur frammi fyrir í daglegu lífi.

Mörg okkar eiga erfitt með að skilja á milli vinnu og frítíma og erum ómeðvitað enn til taks löngu eftir að hefðbundnum vinnudegi líkur. Þetta hefur áhrif á frítíma okkar og samveru með fjölskyldunni. Hvernig aðgreinir þú frítíma frá vinnu ? Það er okkur öllum hollt að staldra við og spyrja okkur þessarar spurningar. Það er engin ein aðferð betri en önnur og við þurfum öll að finna þá leið sem hentar okkur. Ég tel þó mikilvægt að allir dragi skýr mörk þarna á milli svo vinnan hafi ekki áhrif á fjölskyldulífið.

Tíminn sem við höfum til ráðstöfunar dag hvern er takmarkaður, því eigum við það til að flýta okkur við daglegt líf. En þess má geta að tíminn er í raun það eina sem við getum ráðstafað sjálf og mikilvægt er að hlúa að okkur sjálfum og fjölskyldunni sér í lagi á óhefðbundnum tímum. Í þeim faraldri sem nú geisar höfum við fengið að kynnast vinnutengdum sveigjanleika og orðið vör við bæði kosti þess og galla. Sveigjanleiki getur líka valdið aukinni streitu og því hafa margir kynnst undanfarin misseri.

Sveitafélagið Árborg er ört vaxandi samfélag sem byggir á fornum grunni þjónustu. Undanfarin fjögur ár hefur hröð uppbygging þjónustu innan sveitafélagsins fylgt aukinni fjölgun íbúa og gesta þess. Með stækkun sem þessari fylgja ýmsar áskoranir og vaxtarverkir enda í mörg horn að líta í samfélagi fólks með fjölbreyttar þarfir. Tækifærin liggja þó hér í Árborg.

Sem þriggja barna móðir sé ég óþrjótandi tækifæri og bjarta framtíð í samfélaginu okkar sem við erum sífellt að skapa og hlúa að. Hér í Árborg blómstrar til að mynda fjölbreytt íþróttastarf sem hefur gefið af sér mikinn fjölda öflugra einstaklinga undanfarin ár, að þær fyrirmyndir séu hluti af því samfélagi sem hefur skapast hér í Árborg fyllir mann stolti. Uppbygging íþróttamannvirkja innan sveitafélagsins er mjög þarft og mikilvægt skref í áframhaldandi stuðningi við íþróttahreyfinguna og lýðheilsu íbúa.

Við fjölskyldan erum þakklát og stolt af því að tilheyra því samfélagi sem hér þrífst. Hér er allt til alls og að mínu mati hæg heimatökin til að skapa þær aðstæður fyrir íbúa svo þeim sé fært að sækja störf sín í sveitarfélaginu og nærumhverfi þess, óháð menntun og eðli starfa. Þar þurfum við að blása til sóknar.

Ellý Tómasdóttir
MS í mannauðsstjórnun og íbúi í Árborg

Fyrri greinVésteinn þjálfari ársins í Svíþjóð
Næsta greinUndir áhrifum með barnið í bílnum