HSSH: Harðsnúið lið í þína þágu í 35 ár

Nokkrir mætir menn í Hveragerði stofnuðu Hjálparsveit skáta í Hveragerði, HSSH, þann 23. september árið 1975.

Áður höfðu starfað hér Björgunarsveitin Víkingur sem var stofnuð 1974 og Elding sem var stofnuð 1973.

Á þessum 35 árum sem liðin eru frá stofnun HSSH hefur sveitin stækkað, dafnað og ýmislegt drifið á daga meðlima sveitarinnar.

Allt frá stofnun sveitarinnar hafa útköll á Hellisheiði verðið stór hluti heildar útkalla hjá hjálparsveitinni en útköllum í heildina hefur fjölgað verulega og sem dæmi má nefna að á síðasta starfsári voru útköll um fjörutíu.

Hjálparsveitin varð fyrir gríðarlegu áfalli þegar húsnæði sveitarinnar brann þann 31. desember 2005 þegar kviknaði í flugeldasölunni, mikill eldur gaus upp í kjölfarið og húsnæði sveitarinnar gjöreyðilagðist.

Í eldsvoðanum brann einnig allur búnaður HSSH nema 2 bílar frá sveitinni. Með sameiginlegu átaki félaga í HSSH, Hveragerðisbæjar , íbúa og fyrirtækja í Hveragerði sem og á öllu landinu tókst að byggja sveitna upp aftur. Það nálgast kraftaverk að á aðeins þremur dögum var sveitin orðin útkallshæf en það tókst með ómetanlegri aðstoð fyrirtækja og annarra björgunasveita sem lánuðu og gáfu búnað og fatnað. Við tók mikið uppbyggingar starf hjá félögum HSSH. Bygging nýs húss kostaði mikla vinnu og áfram þurfti að sinna útköllum, æfingum og öðrum daglegum verkefnum.

Félagar í HSSH, ýmsir aðrir aðilar og fyrirtæki lögðu til efni og vinnu. Vil ég nota þetta tækifæri og færa öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti komu að því endurreisnarstarfi miklar þakkir fyrir.

Í dag er nýja Hjálparsveitarhúsið eitt glæsilegasta björgunarsveitahús landsins. Aðstaða félaga til menntunar og þjálfunar í húsinu er til fyrirmyndar en góður kennslusalur er til staðar. Góð aðstaða er líka í húsinu fyrir búnað sveitarinnar og félagsmanna. Í dag er húsið fullbúið með með fullkomna stjórnstöð til stjónunar á útköllum og öðrum verkefnum. Í stjórnstöðinni hefur svæðisstjórn björgunarsveita aðstöðu sem og almannavarnir og aðrir viðbragsaðilar. Stjórnstöðin hefur þegar sannað gildi sitt því hún hefur verðið notuð í stjórnun á stórum aðgerðum ekki bara hér í Hveragerði heldur einnig í Árnessýslu og Suðurlandi öllu.

Laugardaginn 25.september milli kl. 14:00 og 18:00 ætla félagar Hjálparsveitarinnar að halda upp á 35 ára afmæli sveitarinnar. Á sama tíma verður hið nýja húsnæði vígt og mun Sr. Jón Ragnarsson sóknarprestur í Hveragerði blessa húsið og starfsemina.

Boðið verður upp á kaffi og veitingar fyrir gesti og gangandi. Gefst öllum þarna einstakt tækifæri til að kynna sér starfið, sjá húsnæðið og þann búnað sem HSSH hefur yfir að ráða. Við hlökkum til að sjá sem flesta.

Lárus Kristinn Guðmundsson
Formaður HSSH

Fyrri greinMiðarnir að klárast á slúttið
Næsta greinÁtt þú mynd af Gauknum?