Hrafnhildur Lilja: Af geðsjúkdómum og staðalímyndum – Að segja eða þegja?

Högni Egilsson tónlistarmaður hefur nú stigið fram í dagsljósið og sagt frá því opinberlega að hann þjáist af geðhvarfasýki.

Sú ákvörðun hans að tala opinberlega um sjúkdóm sinn var tekin með það að leiðarljósi að vekja athygli á geðsjúkdómum og algengi þeirra. Það vill nefnilega svo til að tónlistarmenn og þekktir einstaklingar geta líka þjáðst af geðsjúkdómum, alveg eins og læknar, smiðir og kennarar. Isaac Newton, Edgar Allan Poe og Beethoven þjáðust allir af geðhvarfasýki, Winston Chruchill þjáðist af þunglyndi, Charles Darwin af víðáttufælni og svona mætti lengi telja. Geðsjúkdómar spyrja nefnilega sjaldnast um stétt eða stöðu.

Það er engu að síður staðreynd að geðsjúkdómar virðast mæta minni skilningi í þjóðfélaginu en aðrir sjúkdómar, ástand sem virðist vera þrálátt þrátt fyrir vitundarvakningu á heilsufari almennt. Sem sálfræðingur hef ég fengið ótal spurningar tengdar geðsjúkdómum. Það er mín reynsla að skilningsleysi margra hvað geðsjúkdóma varðar felst, að hluta til í það minnsta, í vanþekkingu, skorti á upplýsingum og umræðu. Fólk einfaldlega veit ekki hvað það felur í sér að þjást af geðsjúkdómi, lái því hver sem vill.

Sem dæmi má nefna þá staðreynd að sumir telja þá sem þjást af geðsjúkdómum líklegri en þá sem þjást af öðrum sjúkdómum til að hafa stjórn á ástandi sínu, orsaka það eða viðhalda. Þetta viðhorf þykir mér með ólíkindum þar sem rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á það að geðsjúkdómar, margir hverjir, eru ekki síður líkamlegt ástand en andlegt. Geðsjúkdómar samanstanda af flóknu samspili lífefnafræðilegra þátta, umhverfis og erfða, og þeir sem þjást af geðsjúkdómum eru engu líklegri til að bera ábyrgð á eigin ástandi en þeir sem þjást af krabbameini eða hjartasjúkdómum.

Ef til vill liggur ábyrgðin á vanþekkingu almennings þegar kemur að geðsjúkdómum að hluta til hjá okkur sem höfum þekkinguna, en það er engu að síður grátleg staðreynd að mörgum þykir umræða um geðsjúkdóma óþægileg og að staðalímyndir varðandi hvað það þýðir að þjást af geðsjúkdómi eru enn ríkjandi í samfélaginu.

Ég verð sorgmædd að hugsa til þess að árið 2012 skuli skilningur á geðsjúkdómum og umburðarlyndi gagnvart þeim ekki vera meira en raun ber vitni. Margir hverjir kjósa að halda geðsjúkdómum leyndum því staðan sem blasir við er sú að fólk mætir ekki skilningi frá samfélaginu. Á meðan þeir sem þjást af geðsjúkdómum sjá þann kostinn skástan að þegja yfir ástandi sínu kemur samfélagið seint til með skilja.

Á meðan samfélagið einkennist af skilningsleysi munu þeir sem þjást af geðsjúkdómum seint sjá hag sinn í því að tala um veikindi sín. Vitundarvakning kemur ekki til með að eiga sér stað ef umræðan er engin. Því ber að fagna þegar fólk hefur kjark til að stíga fram og vekja máls á geðsjúkdómum og málefnum þeirra sem af þeim þjást. Umræðan er þörf og löngu tímabær.

Það er líka löngu tímabært að við spörkum dómarasætinu út í horn og fögnum fjölbreytileika fólks almennt, því mikið ofboðslega væri lífið leiðinlegt ef allir væru eins.

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir,
sálfræðingur

Fyrri greinFjölbreytt dagskrá og markaðsstemmning á Jólatorginu
Næsta greinFSu tapaði á Egilsstöðum