Hjalti Tomm: Góðar fréttir af atvinnulífinu eða hvað?

Um þessar mundir koma fram í fjölmiðlum áhugaverðar upplýsingar um launakjör ýmissa aðila í samfélaginu.

Fram kemur við samanburð frá fyrra ári að töluvert launaskrið hefur verið hjá stjórnendum, millistjórnendum og mörgum eigendum fyrirtækja á Íslandi.

Þetta er sérlega áhugavert þegar það er haft í huga að í þessum hópi er fólk sem varaði sterklega við óábyrgum launkröfum almenns launafólks. Það var, í þeirra huga, einsýnt að ef fallist yrði á hækkanir umfram tvö prósent á almennum vinnumarkaði þá myndi þjóðfélagið riða til falls og allt erfiði undanfarinna ára við uppbyggingu í þjóðfélaginu yrði stefnt í hættu. Niðurstaðan varð, eins og vel er kunnugt, almenn 2.8% prósent hækkun en eilítið hærra til þeirra allra launalægstu.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og greinilegt að flestir aðrir en forsvarsmenn almennu stéttarfélaganna hafa skellt skollaeyrum við þessum aðvörunum. Flestir hópar sem samið hafa á eftir ASÍ hafa fengið umtalsvert meiri hækkanir þó reynt sé að fela þær bak við ýmsar útfærslur svo sem breyttan vinnutíma og fleira. Því ber að fagna að til skuli vera hópar í samfélaginu sem hafa aðstöðu til að ná eyrum stjórnenda sinna betur en hin almennu stéttarfélög.

Og það verður ekki séð að forsvarsmenn æði margra fyrirtækja sem höfðu uppi viðvörunarorð um hættuna af „óábyrgum og óhóflegum launakröfum“ telji sig í hópi þeirra sem bera ábyrgð á velferð samfélagsins. Allavega sér þess ekki stað í þeirra eigin launakröfum. Stjórnendur og millistjórnendur skafa ekki beinlínis botninn ef marka má álagningar skattstjóra.

Eftir stendur þessi spurning: Hver annar en hinn almenni launamaður ætlar að leggjast á árarnar og taka ábyrgð á því að þetta þjóðfélag fari ekki á hausinn?

Það er greinilegt að stjórnendur og eigendur fyrirtækja telja sér málið ekki skylt.

Það verður skemmtilegt að setjast niður með þessu fólki í haust og taka upp umræðuna frá því í vetur um hvað atvinnulífið þolir í raun og veru af launahækkunum. Og kannski væri gaman að varpa fram þeirri spurningu í þennan vellaunaða hóp hvort íslenskt atvinnulíf hafi yfirleytt efni á að brauðfæða starfsmenn sína.

Ef marka má álagningarseðla þá er ástandið töluvert betra en menn vildu vera láta kringum áramót.

Hjalti Tómasson, starfsmaður Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna

Fyrri greinVerðlaunum heitið fyrir upplýsingar um innbrotin
Næsta greinÁrásarmaðurinn handtekinn á staðnum