Hinsegin fólk er allstaðar

Við erum á vinnustöðum, í fjölskyldum, í skólum. Við erum úti að hlaupa og á íþróttaæfingum og barnaafmælum.

Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin ár og áratugi um tilvist hinsegin fólks og okkar borgaralegu réttindi og samfélagslegt samþykki. Sífellt fleiri leggja sig fram um að skapa rými fyrir fjölbreytileikann í sinni kennslu, vinnu, fjölskyldu eða öðru starfi. Hver veit, kannski einn daginn mun það vera orðið óþarfi því við verðum öll jafn fjölbreytt, jafn jöfn?

En sá dagur er ekki runninn upp. Foreldrar, stjórnendur, kennarar, þjálfarar og fleiri geta notið góðs af fræðslu og rými til að spyrja spurninga og æfa sig til að geta sem best stutt sína skjólstæðinga sem tilheyra hinsegin heiminum og verið tilbúin fyrir samtöl og spurningar.

Þekkir þú orð eins og hán, kynsegin, pankynhneigð, og kannt að nota þau? Hvað um kynhlutlaust mál? Að tala um og við trans fólk af virðingu?

Ef þú telur þig geta notið góðs af frekari þekkingu eða færni á þessu sviði hvetjum við þig til að hafa samband og bóka fræðsluerindi. Það getur verið allt frá stuttu spjalli um orðræðu yfir í lengri námskeið um hinseginleikann og hvernig hann skarast við hin ýmsu svið mannlífsins.

Svo er gott að muna að það þarf ekki að skilja til að virða, en aukinn skilningur getur leitt til betri samskipta í fjölskyldunni, vinnustaðnum, skólanum eða í vinahópnum. Það er því til mikils að vinna, enda er hinsegin fólk allstaðar.

Sólveig Rós (hún)
MA er foreldra- og uppeldisfræðingur sem sérhæfir sig í kynjafjölbreytileika
Alexander Björn Gunnarsson (hann)
MA er félagsráðgjafi með sérhæfingu í trans málefnum
www.solrosradgjof.is

Fyrri greinSlys á fólki á fjórhjóli og hlaupahjóli
Næsta greinBrekkan varð brött í upphafi leiks