Hernaðurinn gegn fuglunum

Álftahjón með litla unga. Ljósmynd © JÓH

Enginn er búmaður nema hann barmi sér. Það á við um grein Eggerts Vals Guðmundssonar oddvita Rangárþings ytra hér á síðunni fyrir stuttu. Hann sér ekki aðra lausn á hinum svokallaða „álftavanda“ en að aflétta friðun á þessum fallega fugli og herja á hann með skotvopnum.

Þessi krafa kemur upp á hverju einasta ári. Það er ótrúlegt að fólk hafi ekki hugmyndaflug til annars en að fara með hernaði gegn blessuðum fuglunum, sem það er að fæða á ökrum sínum og túnum. Það eru til fjölmargar leiðir aðrar en dráp og blóðsúthellingar til að halda fuglunum frá, það verður held ég aldrei leyft að drepa álftir löglega. Það er heldur ekki umhverfisvænt að dreifa þungmálminum blýi yfir tún og akra landsmanna.

Fyrst þarf að skilgreina meint tjón. Álftir eru stórir fuglar og tel ég að fólk ofgerir oft fjölda þeirra og tjón, að þetta sé að einhverju leyti sálrænt. Ef grípa á til aðgerða verður það að vera í samræmi við tjónið, sem fuglarnir valda. Síðan má reyna margs konar fælingu: Fuglahræður, flugdreka og blöðrur, borða sem endurkasta ljósi, eftirlíkingu af rándýrum og leysigeislum. Þetta eru allt þekktar aðferðir.

Hljóðfælur eru líka brúkaðar: að spila neyðarköll fugla, gasbyssur með háum hvellum og hátíðnihljóð. Vel þjálfaðir hundar og drónar hafa líka gagnast við að halda fuglum frá ökrum.

Álftir lenda ekki í óslegnum kornakri. Þær þurfa að lenda nærri honum og ganga inní hann. Lág girðing gæti stíað af „flugbrautina“ og akurinn. Skjólbelti geta líka haldið álftum frá. Það hefur víða verið gripið til þess ráðs að rækta upp akra og tún sérstaklega fyrir fuglana, þar sem þeir geta etið í friði. Þeim er þá haldið frá öðrum svæðum og sækja þeir þá sérstaklega á þessa akra þar sem þeir fá frið. Slíkt framtak hefur verið styrkt af hinu opinbera í nágrannalöndum. Álftir á óðali halda öðrum álftum frá og því hafa framsýnir bændur reynt að fá álftir til að verpa á landi sínu til að verja það gegn öðrum álftum.

Það hefur aldrei verið skoðað hvort álftirnar geri jafnvel gagn í túnum, kornökrum og kartöflugörðum, þangað sem þær sækja helst utan varptíma. Álftin er í eðli sínu votlendisfugl og álftirnar verpa fyrst og fremst í votlendi, bæði á láglendi og heiðum uppi. Álftin er að mestu farfugl, um 10% stofnsins hefur hér vetursetu. Álftastofninn er ekki stór, rúmlega 40.000 fuglar samkvæmt síðustu talninga, 2020, en síðan hefur fuglaflensa herjað á álftina, eins og marga aðra fugla. Stofninn er talinn á vetrarstöðvum á 5 ára fresti, næsta talning er nú í vetur.

Að lokum langar mig að biðja bændur og málsvara þeirra að hætta stríðsyfirlýsingu á hendur saklausum fuglum og reyna frekar að koma að málinu af skynsemi og yfirvegun. Álftin hefur verið friðuð í meira en 100 ár og verður það vonandi um ókomna tíð.

Jóhann Óli Hilmarsson
Fyrrverandi formaður Fuglaverndar, íbúi í Flóa og nágranni álfta

Fyrri greinEinstök hrekkjavökuhátíð í Skaftholtsréttum
Næsta greinHrekkjavökuhald frestast vegna veðurs