Hermann Ólafsson: Valið

Senn skal kosið til sveitastjórna. Hið pólitíska umhverfi hefur tekið á sig nýjar myndir.

Þjóðin lifir í skugga efnahagshruns og kjósendur eru margir uppgefnir, bitrir og ringlaðir yfir ástandi mála. Ný framboð, og framboð sem ekki tengjast gömlu flokkunum, fá víða mikið fylgi í skoðanakönnunum, og þær gefa einnig til kynna að meirihlutar falli á mörgum stærri stöðum landsins. Fræðingar velta fyrir sér skilaboðum kjósenda og flest bendir til að fólk vilji refsa gömlu flokkunum sem verið hafa við stjórnvöl landsmála síðastliðin ár. Hér kristallast ókostir flokkakerfisins í kringum sveitastjórnamál. Landsmálapólitíkin þvælast í raun bæði fyrir frambjóðendum og kjósendum sveitarfélaga. Sem betur fer er það stefna núverandi ríkisstjórnar að breyta þessu kerfi þannig að hinn almenni kjósandi fái sjálfur að velja fólk á þann lista sem það kýs og vonandi þróast framboðin frá því að vera tengd stjórnmálaflokkum.

En hvernig á þá fólk að fara með þennan dýrmæta rétt sinn til að kjósa eins og staðan er í dag? Hér í sveitarfélaginu Árborg hafa hlutirnir æxlast þannig að hér hafa ekki komið fram ný framboð og valið stendur á milli „gömlu fjórflokkana“ sem svo eru stundum nefndir (þótt tveir þeirra séu reyndar mjög ungir!). Að þessu leyti eru kosningarnar bundnar flokkunum og fólk hefur ekki val um að kjósa „óánægjuframboð“, hafi fólk áhuga á því. Margir hugsa sem svo að hægt sé að láta í ljós óánægju með kerfið með því að hunsa kosningarnar eða skila auðu. Það hefur þó þann ótvíræða ókost að um leið er í raun verið að fela öðrum að velja fyrir sig því það eru jú einungis athvæði greidd framboðum sem telja! Ég er því á því að sem flestir taki þátt, hvort sem fólki þyki kostirnir mis-góðir eða mis-slæmir!

Í ljósi augljósra galla á kosningakerfinu er það mín skoðun að kjósendur ættu að láta landsmálin sem mest liggja milli hluta, ekki kjósa eða útiloka flokka út frá t.d. afstöðu til ríkisstjórnar eða ábyrgðar flokka á „Hruninu“. Hér í Árborg, sem og víða annarstaðar, er þrátt fyrir allt nokkuð venjulegt fólk sem er að bjóða fram krafta sína í þágu samfélagsins og það á skilið að vera metið af eigin verðleikum. Við verðum einfaldlega að meta hvernig mál hafa verið unnin af flokkum meirihlutans á liðnu kjörtímabili og velta fyrir okkur hvernig líklegt er að minnihlutinn hefði staðið að málum. Það eitt gefur okkur vísbendingu um hvernig þau munu vinna úr málum á næsta kjörtímabili. Þá verðum við að taka með í dæmið almenn viðhorf og persónueiginleika frambjóðenda og þá skipta hlutir eins og samstarfshæfileikar miklu máli.

Flokkadrættir mega hinsvegar ekki ónýta góðar hugmyndir og vissulega hafa allireitthvað til síns máls. Í Sjálfstæðisflokknum eru of drífandi og duglegt fólk, gjarnan í eigin atvinnurekstri. Stundum geta reyndar of mikil tengsl við atvinnulífið og athafnamenn verið erfið þegar kemur að úthlutun lóða og leyfa eða þegar fylgja þarf reglum um málsmeðferð. Framsóknarflokkurinn fór í nokkuð óvænta „óvissuferð“ í upphafi kjörtímabilsins með meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokk. Sú ferð endaði í ógöngum þegar sinna þurfti hagsmunagæslu og „stytta þurfti boðleiðir“ varðandi skipulagsmál miðbæjarins. Vinstri græn standa fyrir mörg virðingaverð málefni og hugsjónir. Hins vegar er erfitt fyrir flokkinn að algerlega óþekktur einstaklingur skipi fyrsta sæti listans, því þrátt fyrir allt þá snúast sveitastjórnamál að miklu leyti um persónur en ekki flokka. Í öðru sæti þar er svo landsþekkti bóksalinn sem var fyrsti þingmaður sögunar til að segja af sér vegna sinnar yfirsjónar, og er hann maður að meiru fyrir vikið!

Að gefnu tilefni mæli ég svo með því að fólk fari sérstaklega yfir hvort beinskeyttur áróður Sjálfstæðisfélagsins í Árborg standist nánari skoðun. Veltum t.d. fyrir okkur eftirfarandi atriðum:
– hvort gagnrýni Sjálfstæðismanna á meinta óráðsíu minnihlutans sé raunhæf,
– hvort staða sveitarfélagsins væri betri í dag ef t.d. byggt hefði verið fjölnota íþróttahús fyrir 5-600 milljónir á kjörtímabilinu eins og lofað var,
– hvort stöðug og markviss uppbygging annara íþróttamannvirkja hefði átt sér stað allt kjörtímabilið,
– hvort fasteignir sveitarfélagsins hefðu hugsanlega verið seldar fasteignafélagi sem í dag væri líklega gjaldþrota,
– hvort geymslufé sveitarfélagsins hefði verið geymt á bankabók í stað peningamarkaðssjóðs,
– hvort laun bæjarstjóra væru lægri og fríðindin minni (þó það liggi nú eiginlega alveg fyrir því þeir gerðu nú samning við einn bæjarstjóra á kjörtímabilinu)
– hvort líklegt sé að flokkurinn og frambjóðendur hans nái farsælu samstarfi við stjórnendur í sveitarfélaginu um frekari ráðdeild í rekstri,
– hvort líklegt sé að stjórnunarkostnaður minnki umtalsvert þegar hann er með þeim allra lægsta á landinu nú þegar,
– hvort boðskapurinn um „styttri boðleiðir“ sé e.t.v. annað orð yfir „fyrirgreiðslupólitík“,
– hvort líklegt sé að jafnræðis og yfirvegunar verði gætt í skipulagsmálum sé litið til upphlaupsins í kringum skipulag miðbæjarins sem sprendi síðasta meirihluta D og B lista,

Er fyrst og fremst skora ég á fólk að nýta athvæðarétt sinn og kjósa en láta ekki aðra um að ákveða fyrir sig um skipan mála.

Hermann Ólafsson.

Fyrri greinHeilsufar íbúa undir eldstöðinni kannað
Næsta greinSíðasti spretturinn