Hermann Ólafs: Úrslitin í Árborg

Ég skrifaði grein rétt fyrir kosningar, sem birtist á Sunnlenska.is, um mikilvægi þess að greiða einhverju framboði atkvæði sitt í stað þess að sitja heima eða skila auðu.

Það sýnir sig nú í gegnum úrslit kosninganna í Árborg að dræm þátttaka og mikill fjöldi auðra athvæða hefur haft afgerandi áhrif á niðurstöðuna.

Mjög athyglisvert er að skoða niðurstöðurnar í Árborg m.t.t. þess sem að baki þeim liggur. Í fjölmiðlum er sagt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi „bætt við sig“ 10% fylgi, farið úr 41% í 51%. Ef hinsvegar er litið á raunverulegt fylgi flokksins þá kemur í ljós önnur og athyglisverð mynd. Árið 2006 voru 5041 á kjörskrá. Flokkurinn fékk 1686 athvæði sem samsvarar athvæðum 33,4% kjósenda. Árið 2010 voru 5453 á kjörskrá. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 1883 athvæði, og það sem kemur á óvart er að það svarar einungis til 34,5% kjósenda sveitarfélagsins! Nær lægi væri því að segja að flokkurinn hefði bætt við sig 1,1% fylgi. Það sem fjölmiðlar hins vegar kalla „fylgi flokkanna“ er aftur á móti aðeins hlutfall þeirra athvæða sem greidd voru einhverjum flokki eða framboði, ekki hlutfall kosningabærs fólks eða þeirra sem mættu á kjörstað.

Það sem hinsvegar gerðis í Árborg var það að flokkar meirihlutans töpuðu fylgi, Samfylkingin 38%, Framsóknarflokkurinn 23% og Vinstri græn 10% af sýnu fylgi frá síðustu kosningum. Þessi athvæði skilu sér hins vegar nema að mjög litlu leyti til Sjálfstæðisflokks, heldur voru þau þess í stað einfaldlega ekki nýtt! Því var það í þessum kosningum léleg þátttaka og mikil fjöldi auðra seðla sem skópu þau úrslit sem raun ber vitni. Það er vonandi til umhugsunar fyrir þá sem þannig nýttu sér sinn kosningarétt.

Hins vegar má ljóst vera að vangaveltur þessar eru skrifaðar í anda persónulegra vonbrigða með úrslitin og þeim má vel taka sem slíkum! Hinsvegar er ég sem fyrr afar gagnrýninn á kosningakerfið almennt og þá mynd sem fjölmiðlar draga upp af vilja og skilaboðum kjósenda með framsetningu úrslita kosninga. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg er kominn með hreinan meirihluta með atkvæðum einungis um 1/3 kosningabærs fólks á bak við sig. Sé þetta haft í huga, ásamt þeirri staðreynd að leiðtogi flokksins fékk einungis stuðning frá u.þ.b. helmingi sinna eigin manna í prófkjöri, er vægast sagt umhugsunarvert á hvaða lýðræðislegu forsendum leiðtoginn er kominn til æðstu valda í sveitarfélaginu.

Hermann Ólafsson.

Fyrri greinLitla kaffistofan 50 ára í dag
Næsta greinFjölskylduganga á Miðfell