Hermann Ólafs: Uppskeruhátíðin

Í dag, laugardag, líkur einstöku fótboltasumri á Selfossi.

Á sama tíma í fyrra var því fagnað að í fyrsta skipti í sögu Selfossboltans vann karlaliðið sig upp í úrvalsdeild og kvennaliðið var ótrúlega stutt frá því að gera slíkt hið sama. Þennan einstaka árangur má ekki síst þakka áhuga og samstöðu fjölmargra aðila um mikilvægi góðs árangurs meistaraflokksliða og öflugs hópíþróttastarfs almennt.

En hver voru svo verðlaunin í fyrra? Jú, vissulega fylgdi titlinum veglegur bikar og medalíur um hálsinn en hin eiginlegu verðlaun, og þau mikilvægustu, voru samt tekin út í sumar, þ.e. að leika og taka þátt í úrvalsdeild! Það má því segja að uppskeruhátíðin hafi farið fram í allt sumar en síðasti leikurinn á nýjum og glæsilegum Selfossvelli er einmitt í dag. Það er því full ástæða til að hvetja fólk til að taka þátt allt til enda, því eins og sagt er; það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli heldur vegferðin!

Þrátt fyrir misjafnt gengi karlaliðsins í sumar á meðal þeirra bestu er margt gott og mikilvægt sem fer í reynslubankann. Mér telst til að Selfoss hafi t.d. skorað eitt eða fleiri mörk á móti nánast öllum liðum deildarinnar! Á sama tíma hefur verið byggð upp frábær aðstaða í kringum fótboltann sem mun nýtast okkur vel um ókomna tíð. En það mikilvægasta sem eftir situr er að nú vitum við að þetta er hægt! Vonandi verður sú vitneskja yngri iðkendum hvatning til frekari dáða, því héðan í frá er allt eins víst að karla- og kvennalið Selfoss vinni sig upp í úrvalsdeild.

Ég vil að lokum þakka leikmönnum karla- og kvennaliðs Selfoss fyrir að gera sumarið jafn spennandi og skemmtilegt eins og raunin varð. Við sjáumst svo öll á fótboltavellinum næsta vor. ÁFRAM SELFOSS!

Hermann Ólafsson

Fyrri greinAfmælistónleikar Jóns Kr. í kvöld
Næsta greinÍsland áfram í milliriðil