Helgi S. Haraldss: Að loknu Unglingalandsmóti á Selfossi

Eftir mikinn undirbúning rann upp stóra stundin, þegar Unglingalandsmót UMFÍ fór fram um sl. verslunarmannahelgi, á Selfossi.

Héraðssambandið Skarphéðinn í samvinnu við Sveitarfélagið Árborg var undirbúnings- og framkvæmdaaðili mótsins sem tókst í alla staði frábærlega. Keppt var í fjölmörgum greinum og keppendur hafa aldrei verið fleiri á þessu móti eins og nú, yfir 2000 keppendur voru skráðir til leiks. Til að framkvæma mót af þessi stærðar gráðu þarf fjöldann allan af fólki og voru yfir 500 sjálfboðaliðar af störfum mótshelgina og dagana á undan.

Allir sem að mótinu komu eru sammála um að framkvæmd mótsins hafi tekist mjög vel og þátttakendur og gestir okkar þessa helgi hafa látið í ljós mikla ánægju hversu vel til tókst með mótið. Því er full ástæða til að nota tækifærið og þakka öllum sem að framkvæmd þess komu, til hamingju með störf sín. Sjálfboðaliðum, starfsmönnum Sveitarfélagsins Árborgar, starfsmönnum Unglingalandsmótsnefndar og öllum öðrum sem með einum eða öðrum hætti komu að mótinu.

Einnig ber að þakka íbúum í sveitarfélaginu fyrir einstaka gestrisni þessa helgi, umburðarlyndi og þátttöku í að skapa þá frábæru stemmingu sem var þessa helgi á Selfossi. Nú er hálfleikur en 4.-7. Júlí 2013 verður Landsmót UMFÍ haldið á Selfossi og ég veit að þá verður ekki síður auðvelt að fá sjálfboðaliða til starfa og íbúa til að skapa aftur þá frábæru stemmingu sem var þessa verslunarmannahelgi.

f.h Unglingalandsmótsnefndar,
Helgi Sigurður Haraldsson