Helgi Haralds: Svona gerir maður ekki

Meirihluti Sjálfstæðismanna í Árborg, tók þá ákvörðun í lok síðasta árs að færa Leigubústaði Árborgar í sérstakt félag og taka rekstur þeirra út úr uppgjöri sveitarfélagsins.

Þessari ákvörðun fylgdi engin sannfærandi skýring á þeim tíma þegar það var gert. Við afgreiðslu ársreiknings sveitarfélagsins , fyrir árið 2013, gerði undirritaður þessa ákvörðum að umtalsefni og það að eina skýringin sem væri á henni væri að fegra skuldastöðu sveitarfélagsins og skuldahlutfall þess, korteri fyrir kosningar. Því þrátt fyrir að færa þetta í sérstakt félag bæri sveitarfélagið áfram ábyrgð á öllum skuldum þess og annarri starfsemi, sama stjórnin væri yfir rekstrinum og engar aðra breytingar gerðar.

Þrátt fyrir þessa gagnrýni stóð gjörningurinn og ársreikningurinn sýndi skuldalækkun um tæpar 700 milljónir í uppgjöri Árborgar og um 10% lægra skuldahlutfall þess. Þetta var síðan notað óspart til að sýna fram á betri rekstur sveitarfélagsins, þrátt fyrir að sannleikurinn væri sá að reksturinn hafði lítið sem ekkert lagast þrátt fyrir stór orð þar um.

Þetta getið þið ekki gert
Í haust barst síðan sveitarfélaginu bréf frá Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, þar sem þessi gjörningur er gagnrýndur og bent á að eingöngu sé um að ræða tilraun til að fegra hlutina á þann hátt sem ekki er leyfilegur. Niðurstaða nefndarinnar að sveitarfélaginu beri að taka þessa ákvörðun til baka og að Leigubústaðir Árborgar skuli vera áfram hluti af samstæðuuppgjöri Árborgar og þar skuli telja með allar skuldir og ábyrgðir sem sveitarfélagið beri á þessum rekstri.

Niðurstaðan er sú að meirihluti Sjálfstæðismanna, falsaði afkomu sveitarfélagsins til að láta hann líta betur út þegar farið væri inn í kosningabaráttuna í vor, þar sem ekki hafði tekist á annan hátt að standa við stóru loforðin um að stórbæta rekstur Árborgar og greiða niður skuldir á síðasta kjörtímabili.

Svona gerir maður ekki.

Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi B-listans í Sveitarfélaginu Árborg.

Fyrri greinDvergabakki fær upprekstrarrétt á Holtamannaafrétt
Næsta greinFjölbreytt og mögnuð dagskrá rithöfunda