Helgi Haralds: Miðbæ eða „moll“

Á Selfossi eru frábær tækifæri fyrir skemmtilegan miðbæ, með flottum miðbæjargarði, göngugötu og aðstöðu fyrir verslanir og þjónustu.

Miðbæjargarð með góðri tengingu við Eyrarveg og Austurveg, þar sem fyrir er fjöldi verslana og þjónustufyrirtækja. Nauðsynlegt er fyrir bæjaryfirvöld að skipulagsvinnan haldi áfram og að nýr miðbær verði að veruleika á næstu árum.

Hugmyndir sem komið hafa fram um að reisa stóra verslunarmiðstöð eða „moll“ við Biskupstungnabraut, innkomuna í bæinn, er ekki framtíðarsýn til að styrkja miðbæjarhugmyndina. Að sjálfsögðu er öllum frjálst að hafa hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd ef áhugi er fyrir hendi, en skipulag þarf þá að vera til staðar til að rúma þær.

Í dag er skipulag fyrir stóra verslunarmiðstöð ekki til staðar og því nauðsynlegt fyrir bæjaryfirvöld að hraða miðbæjarskipulaginu til að festa enn frekar í sessi þá sýn að efla miðbæinn og verslun og þjónustu þar.

Flestir íbúar hafa skoðanir á því hvað nýr miðbæjargarður á að innihalda og því nauðsynlegt að sú framkvæmd sé í sátt við íbúa sveitarfélagsins. Mín skoðun er sú að fara eigi varlega í að fylla hann af miklu magni stórra bygginga. Þar eiga að vera lágreistar byggingar sem mynda fallega göngugötu með fjölbreyttri þjónustu fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins.

Þegar komið er inn í bæinn, keyrandi yfir Ölfusárbrú, á að blasa við fallegur miðbæjargarður sem vekur löngun til að leggja bílnum og fá sér göngutúr um hann. Skoða fallegan grasagarð, setjast niður á kaffihúsi og njóta þess að vera til. Góð aðstaða með útisviði fyrir samkomuhald bæjarbúa og aðra sem vilja troða upp sér til ánægju og til að gleðja aðra. Þetta er mín framtíðarsýn og vonandi verður hún að veruleika fyrr en seinna.

Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi og efsti maður á lista Framsóknar í Svf. Árborg.