Helgi Haralds: Góð stefna en hvenær hefjast framkvæmdir?

Í markmiðssetningu Íslands 2020, er stefnt að því að Ísland verði fullgildur meðlimur í hópi norrænna velferðarsamfélaga þar sem félagslegt öryggi og jafnrétti íbúa verði tryggt.

Þar er lögð áhersla á mikilvægi menntunar og tekið fram að hún sé lykilatriði og einnig er sérstök áhersla lögð á að vinna þurfi gegn brottfalli úr framhaldsskólum. Þar er líka sérstaklega lögð áhersla á mikilvægi verknáms í tengslum við framhaldsskólann. Loks er tekið fram að verulegt vandamál sé mikið brottfall úr framhaldsskólum og hátt hlutfall fólks sem hefur aðeins lokið grunnskólanámi. Vegna þess alls kemur fram að þörf sé á stórátaki til að tryggja fjölbreytt tækifæri til náms- og endurmenntunar.

Hálfnað verk þá hafið er!
Í mörg ár hafa sveitarfélög sem standa að Fjölbrautaskóla Suðurlands, greitt á hverju ári í byggingarsjóð skólans.
Þrátt fyrir að verkefnum hvers tíma hafi verið lokið, hafa þau haldið áfram að borga. Nú er svo komið að til er í sjóði um 140 milljónir í þessa framkvæmd. Þrátt fyrir að mikið hafi verið reynt, þá hefur ekki tekist að fá ríkisvaldið til að skrifa undir samninga um fjármagn ríkisins til viðbyggingarinnar, en hlutur þess er 60% af stofnkostnaði, samkvæmt lögum um framhaldsskóla.

Sóknartækifæri
Í fjárfestingaráætlun fyrir Sóknaráætlun Suðurlands, sem skilað hefur verið til ríkisvaldsins, er þetta verkefni númer tvö á listanum, af átta verkefnum. Með þessu má sjá hvað þetta skiptir okkar samfélag miklu máli og baráttan fyrir því. Viðbygging við verknásmhús FSu mun skipta sköpum í námsframboði á Suðurlandi og möguleika nemenda á að ljúka mörgum iðngreinum í skólanum sem ekki er hægt að ljúka þar í dag.

Berjumst!
Að framansögðu voru það mikil vonbrigði að sjá að ekki er gert ráð fyrir fjármunum í viðbygginguna, á fjárlögum fyrir árið 2012. Nema kannski í óskiptum fjárfestingahluta fyrir framhaldsskóla uppá rúmar 50 milljónir. Ég skora á þingmenn Suðurkjördæmis og alla aðra, sem geta haft áhrif á málið, að tryggja fjármagn til þess að hægt verði að hefja undirbúning og byrja framkvæmdir við viðbygginguna.

Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltúri B-lista í Svf. Árborg.

Fyrri greinStálu öllu víni af staðnum
Næsta greinÞurfti að létta á sér – og þefaði uppi kannabis