Helgi Haralds: Atvinnu- og ferðamál í Árborg

Eitt af stefnumálum okkar sem skipum lista Framsóknarflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar er að á næsta kjörtímabili verði ráðinn sérstakur atvinnu- og ferðamálafulltrúi til starfa í Sveitarfélaginu Árborg.

Undirritaður lagði fram tillögu um þetta í bæjarráði í árslok 2011, en tillagan var þá felld af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Rökin voru þau að Svf. Árborg væri aðili að Markaðsstofu Suðurlands, SASS og fleiri samtökum. Einnig væri atvinnumálunum sérstaklega sinnt af bæjarráði. Síðan eru liðin tæp þrjú ár og hvað hefur gerst á þeim tíma?

Því miður tel ég að þessu hafi alls ekki verið sinnt nægjanlega að hálfu sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar alls ekki í stakk búnir til að geta sinnt þessu eins vel og best væri og annað starfsfólk sveitarfélagsins hefur ekki nægjanlegan tíma heldur til að sinna þessu.

Á þeim tímum þegar erlendum ferðamönnum fjölgar stöðugt og innlendir ferðamenn eru á faraldsfæti verður sveitarfélagið að hafa starfsmann til að sinna þessum málum, leiða saman þá sem eru að þjónusta ferðamenn, aðstoða þá og koma á framfæri. Ferðaþjónusta er hluti af atvinnutækifærum hjá okkur og hlúa verður að því sem fyrir er og finna ný tækifæri.

Allir eru sammála um að frekari atvinnumöguleika vantar í sveitarfélagið og leita þarf leiða til að finna þá, hvort sem hingað flytji fyrirtæki sem starfandi eru annarsstaðar eða hjálpa til við að stofna til nýrra. Ekki bara í ferðaþjónustu heldur allri þeirri flóru sem fyrir finnst á fyrirtækjamarkaði. Öflugur einstaklingur sem fengist til að stýra þessari vinnu er ég viss um að myndi fljótlega skila árangri. Aðild okkar að öðrum samtökum t.d SASS og Markaðsstofu Suðurlands verður bara til að efla þetta starf enn frekar.

Við sjáum það allstaðar í kringum okkur og annarsstaðar, að þar sem eru starfandi, hvort heldur eru ferðamálafulltrúar eða atvinnufulltrúar, þar er eitthvað að gerast og mikið og gott starf í gangi. Við verðum að snúa okkur við og segja, „ Við viljum vera með og fá ný atvinnutækifæri í sveitarfélagið og styðja við þá sem fyrir eru.“ Það er ekki nóg að sitja og bíða það verður að fara af stað og leita og kynna okkur.

Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi og efsti maður á lista Framsóknar í Svf. Árborg.