Helgi Har: Stóraukin umferð í gegnum Selfoss

Mikið hefur verið ritað og rætt að undanförnu um tvöföldun Suðurlandsvegar og nýja brú yfir Ölfusá við Selfoss.

Það hafa ekki allir verið sammála í umræðunni um brúarstæði en bæjaryfirvöld í Árborg hafa haldið sig við það skipulag sem verið hefur í gildi síðan um 1970, þ.e að ný brú komi á efri Laugardælaeyju. Vegagerðin vill fara yfir á gamla ferjustæðinu við Laugardæli og síðan hafa enn aðrir vakið upp umræðu um að brúin eigi að koma fyrir sunnan og vestan við Selfoss.

Hvað sem þessu líður að þá sýnist manni að miðað við umfang og kostnað við tvöföldun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss með nýrri brú yfir Ölfusá að það verði ansi langur tími þar til ráðist verði í þessa framkvæmd. Það er þrátt fyrir að allir séu sammála um það hvað hún sé nauðsynleg og þjóðhagslega hagkvæm.

Við vitum að í þessa framkvæmd verður ekki ráðist á þessu ári og því verðum við að huga að því sem við höfum og öryggi okkar á þeim vegum og brúm. Þjóðvegur 1 liggur í gegnum miðbæ Selfoss, með allri þeirri umferð sem um hann fer. Það má teljast mildi að ekki skuli hafa orðið stórslys á Austurveginum eða á brúnni yfir Ölfusá í allri þeirri umferð sem þar fer um á degi hverjum og stóreykst yfir sumartímann.

Núna hefur orðið sú breyting að Herjólfur er byrjaður að sigla í Landeyjahöfn. Þá verður mikil breyting á umferð um bæinn okkar, Selfoss. Samkvæmt upplýsingum frá Eimskip, rekstraraðila Herjólfs, fóru með Herjólfi á árinu 2009, 130.000 farþegar, 35.000 fólksbílar, 3.000 flutningabílar sem voru samtals 30.000 lengdarmetrar. Þessi umferð mun öll fara um miðbæ Selfoss eftir að siglingar hófust í Landeyjahöfn.

Því er einnig spáð að mun meiri umferð muni verða til Vestmannaeyja þar sem auðveldara verður og fljótlegara að fara þangað með eigin bíl og verður að hægt að fara þangað í “sunnudagsbíltúr”, fram og til baka samdægurs á mun styttri tíma en hingað til. Fyrir utan þetta hafa fiskútflytjendur á ferskum fiski séð möguleika á að senda fisk til Eyja í veg fyrir flutningaskip sem sigla með ferskan fisk til útlanda og stoppa í Eyjum til að taka fisk. Þessir aðilar hafa því meiri tími til að koma honum þangað en að þurfa að setja hann um borð í Reykjavík. Þetta kallar á mun meiri þungaumferð um miðbæ Selfoss.

Þess vegna verðum við íbúar Selfoss að átta okkur á því hvað er að gerast og að umferð um bæinn okkar á eftir að aukast til muna og álagið á núverandi brú og vegi verður mun meiri og þyngri. Þeir sem ætla að fara til Vestmannaeyja í helgarferð, með Herjólfi úr Landeyjahöfn og ætla að fara seinnipart föstudags eða að kvöldi, verða allir á ferðinni um Hellisheiði og í gegnum Selfoss á sama tíma og allir þeir sem eru að fara í sumarbústaðina í Árnessýslu og í útilegur á Suðurlandi. Ef einhverjum hefur stundum þótt taka tímann sinn að komast á Selfoss úr Reykjavík á föstudagssíðdegi, þá á það ekki eftir að verða auðveldara í sumar.

Er hægt að gera eitthvað í núverandi ástandi til að greiða úr umferðinni og auka öryggi vegfaranda á þessari leið? Þetta er stór spurning sem ég beini til Vegagerðarinnar og lögreglu til að hugleiða og velta fyrir sér hvort einhverjar leiðir séu færar til að auka öryggi okkar vegfarenda og íbúa Selfoss.

Helgi Sigurður Haraldsson íbúi og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg.

Fyrri greinAska prentuð á frímerki
Næsta greinSólgleraugnatískan í Árbænum