Helgi Har: Munu fasteignagjöldin lækka?

Undanfarið ár hefur verið mikil umræða meðal íbúa Sveitarfélagsins Árborgar, um há fasteignagjöld í sveitarfélaginu.

Ekki ætla ég hér að fara að verja þau eða lasta. Heldur að benda á þá staðreynd, hvað fasteignamat eignar hefur mikið að segja um þá upphæð fasteignagjalda sem fasteignaeigendur þurfa að greiða. Nú hafa fasteignaeigendur fengið sent heim til sín upplýsingar um nýtt fasteignamat frá Fasteignamati Ríkisins (FMR). Samkvæmt upplýsingum frá FMR, hefur fasteignamat í Svf.Árborg að meðaltali lækkað um tæp 9%.

Fyrir ákvörðun fasteignamats, sem tekur gildi 31.desember 2010, miðar FMR m.a við staðgreiðsluverð fasteigna í febrúar 2010. Eftir að fasteignamat hefur frekar farið hækkandi í sveitarfélaginu undanfarin ár, er nú kannski komið að því að það fari lækkandi. Þó geta verið undantekningar á og einstaka fasteignir hækkað. Og um leið fara fasteignagjöldin að lækka, eða hvað?

Hvað munum við greiða?
Fasteignagjöldin sem eigendur húsnæðis greiða, fara að stórum hluta eftir fasteignamati frá FMR. Þannig að ef sveitarfélagið heldur óbreyttum álagningarforsendum um næstu áramót, munu fasteignagjöldin hjá flestum lækka. Þetta er auðvelt reikningsdæmi fyrir hvern og einn fasteignaeiganda að reikna út og sjá hvað gjöldin verða á næsta ári, miðað við að núverandi meirihluti breyti ekki þeirri álagningarforsendu sem nú er.

Ef álagningarprósentan verður óbreytt munu tekjur sveitarfélagsins lækka um sem nemur ca. 60 milljónum. Fróðlegt verður að sjá hvernig núverandi meirihluti í Svf.Árborg, mun fara að við álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2011. Munu fasteignagjöldin lækka, standa í stað eða hækka?

Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi B-lista í Svf.Árborg.

Fyrri greinMargir vilja stólinn í ráðhúsi Árborgar
Næsta greinNýr verkefnastjóri þjónustumiðstöðvar