Helgi Har: Ekkert Hókus Pókus?

Fyrir stuttu var samþykkt í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar, fjárhagsáætlun fyrir árið 2011.

Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar núverandi meirihluta Sjálfstæðismanna, fyrir kosningar í vor, einkennist fjárhagsáætlunin af hækkuðum álögum á íbúa sveitarfélagsins. En fyrir kosningar töluðu þeir m.a um að fasteignafjöld í Árborg væru þau hæstu á landinu og leikskólagjöld væru alltof há.

Þrátt fyrir þetta hækka leikskólagjöld um 5% og álagningarprósenta fasteignagjalda er óbreytt á milli ára. Síðan reynir meirihlutinn að halda því fram að hann sé að lækka fasteignagjöld og sú lækkun sem verður sé vegna þeirra aðgerða. Lækkun fasteignagjaldagreiðslu íbúanna á næsta ári, er til komin vegna lækkunar á fasteignamati, að hálfu opinberra aðila, um 10% að meðaltali í sveitarfélaginu Árborg. Þannig að sú lækkun er ekki meirihluta Sjálfstæðismanna að þakka og ef þeir hefðu ætlað að standa við stóru orðin fyrir kosningar, hefðu þeir lækkað álagningarprósentuna á milli ára.

Hver er svo heildarhækkunin á íbúana?
Samkvæmt upplýsingum sem lágu fyrir fundinum þá, eru helstu hækkanir gjaldskráa að gefa sveitarfélaginu auknar tekjur uppá rúmar 120 milljónir á árinu 2011, sem eru auknar álögur á íbúa þess, og skiptast þannig:
Skólamatur hækkar um 20% og tekjuaukningin er 10.137.000,-
Leikskólagjöld hækka um 5% og tekjuaukningin er 5.470.000,-
Skólavistunargjöld hækka um 5% og tekjuaukningin er 784.000,-
Heitt vatn hækkar um 18% og tekjuaukningin er 46.800.000,-
Fráveitugjald hækkar um 12% og tekjuaukningin er 24.590.000,-
Vatnsgjald hækkar um 12% og tekjuaukningin er 15.739.500,-
Sorphirðugjald hækkar um 20% og tekjuaukningin er 17.350.000,-

Hvað þýðir þetta fyrir fjögurra manna fjölskyldu?
Einnig lágu fyrir útreikningar meirihlutans, sem óskað var eftir að hálfu „sjálfskipaðs minnihluta“, um áhrif þessara hækkana á fjögurra manna fjölskyldu, með eitt barn í grunnskóla og eitt barn í leikskóla og á skólavistun. Miðað er við að hún búi í 170 m2 einbýlishúsi með bílskúr.
Leikskólagjöldin hækka um 14.004,- kr á ári.
Skólavistun hækkar um 24.888,- kr á ári.
Mjólk og ávextir í skóla hækka um 336,- kr á ári.
Heitt vatn hækkar um 10.464,- kr á ári.
Fasteignagjöld lækka, vegna breytts fasteignamats, um 12.580,- kr á ári.
Niðurstaðan er sú að hækkaðar álögur á þessa fjölskyldu nema alls 53.388,- kr á árinu 2011, en frá því dregst lækkun fasteignagjalda um 12.580,- kr á ári og er því að lokum 40.808,- kr á ári.

Spörum stóru orðin
Sveitarfélagið Árborg er skuldsett sveitarfélag. Ekki skal gleyma því að skuldirnar eru komnar til vegna mikilla fjárfestinga undanfarinna ára, þegar sveitarfélagið stækkaði ört og íbúafjölgun varð ár eftir ár langt umfram landsmeðaltal. Meðal framkvæmda voru byggingar leikskóla, grunnskóla, gatnagerð, holræsagerð ofl.

Ég held að allir séu sammála því að við þurfum að snúa rekstri sveitarfélagsins við og ná honum í jafnvægi á næstu árum. Það mun ég, eins og aðrir bæjarfulltrúar, reyna að hjálpa til við. Til þess vorum við kosnir af kjósendum, að stýra sveitarfélaginu af ábyrgð og með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. En munum það að stundum borgar sig að spara stóru orðin.

Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, í Sveitarfélaginu Árborg.

Fyrri greinStórt tóbaksrán í Björkinni
Næsta greinUmtalsverð fækkun fæðinga á Selfossi