Heilsustofnun hefur ekkert að fela

Vegna fréttaflutnings í dag, um úttekt Sjúkratrygginga Íslands á Heilsustofnuninni, vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Aðalatriðin eru að við teljum endanlega niðurstöðu eftirlitsins ekki liggja fyrir, við teljum afstöðu Sjúkratrygginga vera efnislega ranga og að við höfum farið fram á fund með Sjúkratryggingum um málið.

Úttekt ekki lokið
Ég vil benda á að úttekt Sjúkratrygginga á málefnum Heilsustofnunarinnar er ekki lokið, öfugt við það sem segir í frétt Kjarnans. Staðfesti deildarstjóri eftirlitsdeildar SÍ í tölvupósti til okkar að svar Heilsustofnunar frá í janúar verði metið sem andmæli við bréfi SÍ frá í desember. Við lítum því svo á að úttektinni sé ekki lokið og að enn eigi eftir að taka tillit til andmæla okkar. Við fengum fréttir af því að Kjarninn hefði fengið það svar frá Sjúkratryggingum að athugasemdir Heilsustofnunar skipti engu. Heilsustofnun hefur ekki verið upplýst um það og þessi stjórnsýsla brýtur auðvitað stjórnsýslulög.

600 milljónir!
Í fréttinni er því slegið upp að „um 600 milljónir króna hafi verið teknar ólöglega út úr Heilsustofnun á 15 árum“. Þetta er rangt, ekkert ólöglegt hefur farið fram. Staðreyndin er sú að hver einasta króna af framlagi ríkisins til Heilsustofnunar hefur farið til að veita þjónustu til sjúklinga í samræmi við þjónustusamning stofnunarinnar við Sjúkratryggingar Íslands.

Einstaklingar greiða sérdaggjöld þar sem framlög ríkisins nægja ekki fyrir meðferðarkostnaði, hvað þá gistingu eða fæði og það er í fullu samræmi við samning SÍ og Heilsustofnunar. SÍ hefur alltaf haft upplýsingar um fjárhæð þeirra greiðslna enda eru þær opinberar.

Ályktun Sjúkratrygginga virðist byggja á því að samningur frá 1991 sé ekki í gildi. Því er ég efnislega algjörlega ósammála en samkvæmt samningum og fylgiskjölum frá 1991 er NLFÍ eigandi húsnæðisins og greiðslur til eigenda fyrir afnot af 13.000 fermetra af húsnæði væri þá að meðaltali um 3,3 m.kr. á mánuði eða um 256 kr.pr. fermeter á mánuði. Sjúkratryggingum hefur alla tíð verið þetta fullkomlega ljóst.

Greiðslur til eigandans, Náttúrulækningafélags Íslands, eru þannig í samræmi við samning sem gerður var við Heilbrigðisráðherra árið 1991 þegar Heilsustofnun var sett á laggirnar og hafa þær greiðslur alltaf legið fyrir þegar samningar við SÍ hafa verið endurnýjaðir.

Heilsustofnun hefur ekkert að fela
Við höfum sent Sjúkratryggingum, og áður heilbrigðisráðuneytinu ársreikninga, skýrslur og niðurstöður árangursmælinga og fengið lof þeirra fyrir góð og skilvirk skil. Þá hefur Ríkisendurskoðun fengið ársreikninga stofnunarinnar. Allar okkar bækur eru opnar fyrir Sjúkratryggingar og Ríkisendurskoðun, öllum fyrirspurnum hefur verið svarað og engar athugasemdir hafa verið gerðar, – aldrei, hvorki við faglega þjónustu né fjármál.

Nú á haustdögum höfum við verið í bréfaskiptum við nýstofnaða eftirlitsdeild Sjúkratrygginga og meðal annars hefur þetta snúist um efnisatriði samninga við Heilbrigðisráðuneytið frá 1991, þegar Heilsustofnun var stofnuð, og virðist eftirlitsdeildin halda fram að það samkomulag sem þá var gert hafi ekkert gildi og sé marklaust. Því erum við ósammála.

Stóra fréttin í málinu er í raun sú að sjúklingar Heilsustofnunar hafa með sérdaggjöldum greitt um 380 milljónir króna síðustu 5 ár til að kosta meðferðarstarf af því að framlög Sjúkratrygginga hafa ekki einu sinni nægt fyrir meðferðarkostnaði.

Til að fá niðurstöðu í málin og ljúka því óskaði Heilsustofnun í gær eftir fundi með Sjúkratryggingum um þær kröfur sem eftirlitsdeildin hefur sett fram og hvort Sjúkratryggingar fari fram á einhverja breytingu á kröfum til Heilsustofnunar.

Þórir Haraldsson,
forstjóri Heilsustofnunar.

Fyrri greinFrestað hjá Selfyssingum vegna gruns um smit
Næsta greinViðbygging við grunnskólann boðin út í febrúar