Heilsubót á Stokkseyri gerð að engu

Sundlauginni á Stokkseyri verður lokað á komandi vetri sem hluta af hagræðingu í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar. Um haust og vor verður opnunartíminn skorinn um tvo þriðju, niður í örfáa klukkutíma og erfitt að sjá hverjum sá opnunartími eigi að þjóna. Svo verður skellt í lás yfir veturinn. Tilkynningin um þetta frá sveitarfélaginu ber yfirskriftina „Breytingar á opnunartímum sundlauga“ en í raun er fyrst og fremst verið að gera að engu þjónustuna á Stokkseyri. Til samanburðar verður opnunartími Sundhallar Selfoss skertur um samanlagt 5 tíma vikulega.

Laugin á Stokkseyri er nú þegar með það stuttan opnunartíma að maður þarf að sæta lagi til að geta nýtt sér þjónustuna. Frá hausti fram í júní hefur laugin hingað til verið opin 30 tíma á viku en verður við skerðingu aðeins opin 11 klukkutíma á viku um haust og vor. Nánar tiltekið 3 klukkutíma á þriðjudögum og fimmtudögum og svo 5 klukkutíma á laugardögum. Allan veturinn, frá nóvember fram í febrúarlok verður laugin alveg lokuð. Til samanburðar er opnunartími Sundhallarinnar á Selfossi 93 tímar á viku en styttist í 88 tíma á viku sem telst lítilvæg breyting.

Sundlaugin á Stokkseyri. Ljósmynd/Árborg

Það því vægast sagt mikill munur á því hve hart er höggvið í þjónustuna á þessum tveimur stöðum. Íbúum er í þessum niðurskurði greinilega mismunað eftir búsetu og sorglegt að sá skorið mest þar sem þjónustan er þegar mjög lítil. Mér og örugglega fleirum sem búa í jaðarbyggðum sveitarfélagsins hefði þótt virðingarvert að niðurskurður á erfiðum tímum myndi endurspegla eitthvað þá staðreynd að við erum öll hluti af sömu heild. Eða hvað?

Sveitarfélagið hafði þarna tækifæri til að sýna eitthvert hugrekki og jafnræði í verki en skortir vilja til þess. Það hefði jafnvel verið hægt að hugsa niðurskurðinn sem sóknarfæri. Hefði ekki verið hægt að hafa Sundlaug Stokkseyrar opna tvö kvöld í viku yfir veturinn og lokað á sama tíma á Selfossi og þannig beina sundlaugargestum yfir í notalegheitin á Stokkseyri? Nú þegar eru Selfyssingar sem kjósa sérstaklega að nýta laugina og eru þar fastagestir. Laugin er dulin perla og virkilega heillandi í einfaldleika sínum. Þar eru tveir heitir pottar, kaldur pottur, vaðlaug, lítil rennibraut og laugin sjálf grunn og hlý. Sveitarfélagið ætti að sjá það sem langtíma markmið að fjölga íbúum og styrkja innviðauppbyggingu á Stokkseyri og Eyrarbakka til farsældar fyrir Árborg alla. Góð aðstaða til heilsueflingar er hluti af því. Sveitarfélagið gerðist formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi árið 2019 með það „meginmarkmiðið að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilsusamlegum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra.“ Það væri flott að sjá þetta í verki í öllum byggðarkjörnum Árborgar.

Nú er verið að safna undirskriftum til að mótmæla lokuninni og vil ég taka undir með vonsviknum sundlaugargestum og velunnurum sundlaugarinnar á Stokkseyri og biðja sveitarfélagið að endurskoða ákvörðun sína.

Linda Ásdísardóttir
íbúi á Eyrarbakka og sundlaugagestur á Stokkseyri

Fyrri greinUppsveitir enn án stiga
Næsta greinFyrsti heimasigur Ægis – Selfoss missti af dýrmætum stigum