Heiða Guðný: Framboðsgrein, hin fyrsta

„…og við vorum að spá í hvernig þér litist á að taka sæti ofarlega á listanum,“ sagði vingjarnleg og hress röddin í símanum.

Þetta var rétt eftir 20. maí og sauðburðarruglan komin í hæstu hæðir svo mér datt ekkert skáldlegra í hug til að segja en „ertekkiaðgrínast“. En vinstri græna konan í símanum var alls ekki að grínast, sauðburður kláraðist, sumarið leið og það fór að síast inn hjá mér að ég væri á leiðinni í framboð og farið að blóðlanga inn á þing. Á réttardaginn í Skaftártungu varð það svo opinbert að ég væri í öðru sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.

Ég vissi um leið og byrjað var að þreifa á þessu að ég ætti samleið með VG þegar kemur að náttúruvernd, sem er mér afar hugleikin, og eins í jafnréttismálum sem er líka mikið áherslumál, en ég var ekki svo viss með landbúnaðinn. Ég er sveitamaður frá innstu hjartarótum, út í fingurgóma og tær, fædd og uppalin á Ljótarstöðum og búin að vera sauðfjárbóndi þar sjálf í fimmtán ár. Meðfram búskap hef ég svo frá 2004 starfað við fósturtalningar í sauðfé og vann við rúning í nokkur ár, íslenskur landbúnaður er mér afar hugleikinn og ég hef á honum brennandi trú. Ég herti mig því upp áður en ég lofaði neinu og las landbúnaðarstefnu Vinstri grænna, sá að mínar skoðanir féllu vel í þann farveg og því var ekkert að vanbúnaði að demba sér í slaginn.

Ég fór á flokksráðsfund hjá VG sem haldinn var á Akureyri 30. september. Þar voru afgreiddar ályktanir meðal annars frá ungum vinstri grænum og þar á meðal tvær tillögur um landbúnaðarmál. Þar sem umræðan undanfarið um landbúnað í kringum búvörusamningana umdeildu hefur á löngum köflum einkennst af þekkingarleysi og upphrópunum þá var ég fyrirfram tortryggin og vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast. En þetta varð mér afar ánægjuleg lesning, málefnalegar, hugmyndaríkar og framsýnar tillögur með áherslu á dýravelferð og skynsamlega nýtingu lands til matvælaframleiðslu. Í ályktununum frá UVG segir meðal annars:

„Ísland hefur burði til að vera að mestu sjálfbært um mat og er það mikilvægt bæði út frá umhverfislegum og lýðheilsulegum sjónarmiðum. Vinstri græn vilja standa vörð um innlendan landbúnað. Innflutt matvæli geta haft gríðarstór vistspor hvort sem þau eru flutt með flugi eða skipum til landsins, auk þess sem notkun sýklalyfja og skordýraeiturs í landbúnaði er hverfandi á Íslandi miðað við mörg þeirra landa sem við kaupum matvæli frá. Því hvetjum við til þess að stórlega verði dregið úr innflutningi á matvælum sem hægt er að rækta eða framleiða á Íslandi.“

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa verið sýnt það traust að vera boðið þetta sæti, ánægð með minn nýja félagsskap og hlakka til komandi verkefna innan Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Á döfinni eru fjölmargir fundir með kjósendum í Suðurkjördæmi og það verður spennandi að fá að vita hvað brennur á fólki í Suðurkjördæmi og hvað það telur vera mestu áherslumálin á næsta kjörtímabili.

Heiða Guðný skipar 2. sæti á lista Vinstri Grænna í Suðurkjördæmi.