Heiða Björg: Lækkum leikskólagjöld

Ég starfaði sem leikskólastjóri í leikskólanum Örk frá 2007 þar til nú í vor.

Þegar ég hóf störf fannst mér áberandi hvað leikskólinn var vel búinn námsgögnum í samanburði við það sem ég þekkti til á höfuðborgasvæðinu. Örk var einnig vel mannaður áhugasömum kennurum og starfsmönnum og átak var í gangi að fjölga fagmenntuðum kennurum.

Svo kom hrunið og því fylgdu kröfur um hagræðingu og sparnað. Á þeim tímapunkti var ákveðið að fækka ekki stöðugildum heldur að reyna tvær leiðir í niðurskurði. Þær voru að segja upp allri yfirvinnu starfsmanna, hafa starfsmannafundi á vinnutíma og leita allra leiða við að lágmarka innkaup. Þetta skilaði árangri í rekstrarniðurstöðu. En það sem átti að verða tímabundin lausn varð síðan viðvarandi ástand.

Hjá mér fór ómældur tími í að yfirfara ársskýrslur Sambands íslenskra sveitarfélaga og bera rekstrarniðurstöður leikskólans saman við aðra leikskóla í landinu með svipaðan barnafjölda. Einnig varð ég að gera samanburð á kostnaði samkvæmt reiknilíkani Reykjavíkurborgar, sem eins og annar samburður sýndi að kostnaður sveitarfélagsins á hvert barn í leikskólanum Örk var lægri en í flestum sveitarfélögum landsins. Á þeim forsendum reyndi ég að fá aukið fjármagn til skólans en talaði fyrir daufum eyrum þegar kom að fjárhagsáætlun.

Það er staðreynd að foreldrar í Rangárþingi eystra greiða nú ein hæstu leikskólagjöld á landinu, á sama tíma eru fjárframlög sveitarfélagsins til rekstrar leikskólans með því minnsta sem gerist. Leikskólinn Örk er samt sem áður vel rekin stofnun; húsnæði hans er ódýrt og margt annað hjálpar til við að gera rekstur hans góðan. Einmitt vegna þess viljum við lækka gjaldskrána og láta þannig foreldra njóta góðs af.

Við teljum að menntun barna okkar sé fjárfesting til framtíðar og að við eigum ekki að vera í hópi þeirra sveitarfélaga sem hvað minnst leggja til leikskólamála. Með því að lækka skuldir sveitarfélagsins og þar með vaxtagjöld, skapast svigrúm til að lækka leikskólagjöld. Það viljum við sjálfstæðismenn í Rangárþingi eystra leggja áherslu á.

Heiða Björg Scheving, skipar 4. sæti á D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra.

Fyrri greinFengu æðstu viðurkenningu Lions
Næsta greinKristrún kemur heim