Halla Hrund – minn forseti

Þegar Halla Hrund bauð sig fram til forseta eftir páska var ég ekki lengi að ákveða að hún væri minn forsetaframbjóðandi. Hún er klár, vel menntuð, hefur ótrúlega mikla reynslu miðað við aldur, vel innrætt, réttsýn, einlæg og hefur yfirsýn yfir áskoranir nútíðar og framtíðar.

Svo fór ég að leggja við hlustir, hvað finnst fólkinu í landinu? Í sjónvarpsspjalli tók ég eftir að blaðamaður hafði verið að tala við vin sinn sem er bóndi og var staddur á bændaþingi, að mig minnir í Hollandi. Í kjölfar frétta um frambjóðendur snerist umræðan hjá íslensku bændunum í ferðinni vitanlega um hvern þeir vildu fá sem forseta. Umræðan var fyrst út um allt. Margir nefndir til sem ásættanlegur kostur í embættið. En eftir nokkra daga voru allir orðnir sammála um að Halla Hrund væri þeirra frambjóðandi. Og ég hugsaði: Áhugavert – hópur bænda og allir ætla að kjósa Höllu Hrund! Bændur fyrir Höllu Hrund. En ef til vill er þetta ekki skrýtið. Bændur á Síðu hvöttu hana í framboð – í sveitinni þar sem hún var í öll sumur sem stelpa og hún tekur enn þátt í leitum á haustin. Bændurnir þekkja kostina sem hún hefur, áhugann á sameiningarmættinum í samfélaginu. En það eru ekki bara bændur sem styðja Höllu Hrund. Á lista yfir mörg hundruð stuðningsmenn sem hafa skráð sig í sjálfboðavinnu fyrir forsetaefnið er að finna allt litróf samfélagsins – frá trillukörlum til hársnyrta, frá bílstjórum til frumkvöðla. Fólk er til í allt – bakstur, vakta kosningaskrifstofu, skrifa greinar, greina umræðuna, leiðrétta málfar, skutla, hringja út. Það mætti nefna hvaða viðvik sem er – ég gæti án vafa fundið einhvern á stuðningsmannalistanum sem hefur boðið fram slíka aðstoð. Grasrótin virðist vera að rísa upp og mér finnst gaman að vera með í átakinu.

Svo fór ég að skoða ummæli um Höllu Hrund á samfélagsmiðlum og þau eru afar skýr. Það er jákvætt að hún hefur ekki tekið þátt í stjórnmálum. Sem orkumálastjóri hefur hún tekið málstað almennings, að hún muni sem forseti tala fyrir málstað samvinnuverkefna á sviði orku, tækni og sjálfbærni. Hún hefur þá sýn að auðlindir landsins nýtist ekki einungis þessari kynslóð heldur einnig komandi kynslóðum.

Sem persóna hefur Halla Hrund allt að bera sem frábær forseti – hefur verið sett fram á samfélagsmiðlum – útgeislun, hlýju, jákvæðni, hógværð, greind og svo er hún mjög þjóðleg. Hún hefur óflekkað mannorð og kemur vel fyrir. Að margra mati er hún sá frambjóðandi sem þjóðin getur sameinast um og fundist vera sinn sanni forseti. Hún smýgur inn í þjóðarvitundina segja aðrir. Og skoðanakannanir sýndu strax að fylgi Höllu Hrundar jókst í veldisvexti á einungis tveimur vikum.

Halla Hrund er einmitt frambjóðandi sem þjóðin getur sameinast um. Þetta er mikilvægt. Í nýlegri skoðanakönnun Maskínu fékk Halla Hrund nálægt 30% fylgi meðal stuðningsmanna allra flokka utan eins. Í okkar litla landi þar sem er mikil pólitísk sundrung er mikilvægt að kjósa forseta sem allur pólitíski skalinn getur hugsað sér sem sameiningartákn þjóðarinnar.

Á framboðsstíðu Höllu Hrundar má lesa: „Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands sem fulltrúi almennings, fulltrúi fólksins í landinu. Ég ólst upp í blokk í Árbænum og varði öllum skólafríum í sveitinni austur á Síðu hjá ömmu og afa. Ég ólst upp við þau gildi að mikilvægt væri að leggja sig fram, trúa á það góða í fólki og að allt væri hægt. Í embætti forseta Íslands vil ég halda þessum gildum á lofti og leggja áherslu á samstöðu okkar sem þjóðar, náttúru okkar, menningu og hugvit — fyrir framtíðina.“ Það er þetta látleysi og þessi skýra sýn á réttlæti og framtíðina með almannahagsmuni í huga sem stendur upp úr í samtölum við fólkið sem kemur í kosningamiðstöðina í Nóatúni. Halla Hrund tekur einnig fram á framboðssíðu sinni að hún hafi alist upp við þau gildi að mikilvægt sé að leggja sig fram, trúa á það góða í fólki og að allt sé hægt. Í embætti forseta Íslands vill hún halda þessum gildum á lofti og leggja áherslu á samstöðu þjóðarinnar, náttúruna, menninguna og hugvitið – fyrir framtíðina. Hún vill leggja sitt af mörkum til að fjölga tækifærum öllum til handa, heima og heiman, efla samkennd og samstöðu þjóðarinnar, hlúa að sjálfbærri og friðsælli framíð – með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þess vegna er Halla Hrund minn forsetaframbjóðandi.

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor emerita.
Stuðningsmaður Höllu Hrundar Logadóttur til embættis forseta Íslands.

Fyrri greinJafntefli í fyrsta leik Selfoss
Næsta greinSindratorfæran á Hellu um næstu helgi