Gylfi Þorkels: Já, Gunnar, segjum satt!

Gunnar Egilsson, frambjóðandi D-listans í Árborg, auglýsir í Dagskránni fimmtudaginn 6. maí sl. eftir sannleikanum.

Vert er að taka heilshugar undir með Gunnari. Það kemur því á óvart að fylgjast með málflutningi ýmissa félaga hans í Sjálfstæðisflokknum, sem ekki taka neitt mark á Gunnari hvað þetta varðar.

D-listinn í Árborg byggir of stóran hluta af kosningabaráttu sinni á ósannindum, í þeim tilgangi að sverta þá flokka og fólk sem farið hefur með meirihlutastjórn í sveitarfélaginu undanfarið kjörtímabil. Nokkur dæmi:

1. D-listinn segir að bæjarstjórnarmeirihlutinn hafi sóað miklu fé úr bæjarsjóði með Miðjusamningi. Það er ósatt.
2. D-listinn segir að sveitarfélagið hafi tapað 130 milljónum á peningamarkaðsbréfum. Það er ósatt.
3. D-listinn segir að bæjarstjórnarmeirihlutinn áætli nú að byggja kaffihús í fuglafriðlandinu fyrir tugi milljóna. Það er ósatt.
4. D-listinn segir að bæjarstjórnarmeirihlutinn niðurgreiði bæjarhátíðir í öðru sveitarfélagi. Það er ósatt.
5. D-listinn segir að bæjarstjórnarmeirihlutinn hafi sóað tugmilljónum í útilistaverk. Það er ósatt.
6. D-listinn heldur því fram að bæjarstjórnarmeirihlutinn ætli að byggja „höll“ undir menningarstarfsemi. Það er ósatt.
7. D-listinn segir að Árborg greiði hæstu bæjarstjóralaun landsins. Það er ósatt.

Þó verðugt væri er það of langt mál að fara ítarlega yfir og leiðrétta þennan lista, en þó nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Í fyrsta lagi var umræddur „Miðjusamningur“ gerður kjörtímabilið 2002-2006 og einnig þá, skömmu fyrir kosningar, tekin ákvörðun um arkitektasamkeppni um skipulag miðbæjarins. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu í upphafi yfirstandandi kjörtímabils meirihluta sem stjórnaði öllum undirbúningi og framkvæmd samkeppninnar, samdi þær forsendur sem lágu henni til grundvallar og valdi vinningstillöguna, sem núverandi skipulag byggir á. Núverandi meirihluti hefur frá því hann tók við, haustið 2006, unnið að því að útfæra skipulagið nánar, og hefur m.a. minnkað byggingarmagnið í miðbænum verulega.

Í öðru lagi hefur bæjarstjórnarmeirihlutinn engar áætlanir um byggingu kaffihúss í fuglafriðlandinu. Hið rétta er að samþykkt var eðlileg og saklaus tillaga um að taka út kostnað, svo hann lægi fyrir, við annars vegar byggingu þjónustuhúss fyrir gesti fuglafriðlandsins og hinsvegar lagningu slitlags á veg sem þangað liggur og bílastæði. Það var nú allt og sumt.

Í þriðja lagi studdi bæjarstjórnarmeirihlutinn fjölmarga listamenn og hópa í Árborg til að koma fram á Menningarnótt í Reykjavík og lagði til þess nokkrar milljónir króna. Fulltrúar meirihlutans eru stoltir af þeirri menningu og listsköpun sem blómstarar í sveitarfélaginu, og finnst hún eiga það skilið að henni sé komið á framfæri sem víðast.

Í fjórða lagi er fróðlegt að bera saman hugmyndir annars vegar D-listans og hinsvegar bæjarstjórnarmeirihlutans varðandi „menningarhúsnæði“. Við í meirihlutanum höfum talað fyrir þeirri framtíðarsýn að í miðbænum verði, í einhverju af þeim húsum sem þar verða vonandi byggð, þekkingarsetur með háskóla- og rannsóknarstarfi, nýsköpun ýmiskonar, Bókasafn Árborgar og salur sem hýst gæti menningarstarf af fjölbreyttri gerð, samkomu- og sýningarsalur sem einn hluti af stærri heild. Sér er nú hver höllin! Hinsvegar hefur D-listinn talað fyrir því að sveitarfélagið leggi hundruð milljóna í að fullklára salinn góða í Hótel Selfossi. Salinn sem fyrri bæjarstjórnir eru þegar búnar að gefa einkaaðilum oftar en einu sinni, fyrir utan stórar upphæðir fasteignagjalda sem hafa verið afskrifaðar í gegnum tíðina. Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti hefur ekki viljað taka þátt í þeim skrípaleik og sóun á almannafé sem felst í því að leggja stórfé í, eða kaupa aftur, fasteign sem búið er að gefa! Nýverið lagði svo bæjarstjórnarmeirihlutinn fram hógværar tillögur, í anda tímanna, m.a. um nýtingu Tryggvaskála og ódýra viðbyggingu við leikhúsið við Sigtún, s.k. „svartan kassa“ til eflingar leiklistinni.

Þegar sjálfstæðismenn í Árborg fara að tala um fríðindi og há laun bæjarstjórans tekur steininn þó fyrst úr. Laun núverandi bæjarstjóra eru 350 þúsund krónum lægri á mánuði en þau laun sem Sjálfstæðisflokkurinn samdi um við sinn bæjarstjóra um mitt ár 2006, að ekki sé talað um fríðindin, s.s. bílakostnað og launaréttindi eftir starfslok. Allt tal sjálfstæðismanna um óráðsíu og sóun hittir þá sjálfa fyrir.

Engum er það auðvelt að taka ákvarðanir um að skerða þjónustu. Í því rekstrarumhverfi sem við blasir er það þó því miður óhjákvæmilegt. Áhersla meirihluta bæjarstjórnar er sú að draga saman fremur en að loka og hætta þjónustu. Þessi stefna er sársaukaminnst og dreifist jafnast á alla. Hennar verður vart alls staðar. Með því að hætta að veita ákveðna þjónustu, loka bara sjoppunni, hefði sennilega verið hægt að draga enn meira úr útgjöldum, en það hefði um leið höggvið stórt skarð og valdið illbætanlegu tjóni á velferðarþjónustu sveitarfélagsins. Það vildi meirihluti bæjarstjórnar ekki gera. Í staðinn var dregið úr kostnaði, og um leið þjónustu, á öllum sviðum. Þessa samdráttar varð vart í sundlaugum, snjómokstri, leikskólum, grunnskólum, launakjörum starfsfólks, félagsþjónustu, framkvæmdum, einhverjum uppsögnum; í stuttu máli á öllum þjónustustofnunum og sviðum sveitarfélagsins. Menn sem gagnrýna útgjöld sveitarfélagsins en hamast um leið gegn nánast hverri ákvörðun um samdrátt í rekstri, eru ekki trúverðugir.

Minnistætt er við fjárhagsáætlunargerðina seint á síðasta ári, þegar Sjálfstæðisflokkurinn þóttist ætla að taka þátt í henni af ábyrgð og í samvinnu, að leiðtoginn sagði ítrekað að sjálfstæðismenn myndu ekki gera athugasemdir við neinar niðurskurðartillögur; þeir myndu ekki nota „hrunið“ til að „slá pólitískar keilur“, svo vitnað sé orðrétt í hann. Aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu við sama tækifæri þau orð falla að ekki væri „gengið nærri nógu langt í niðurskurði“. Síðan þá hafa fulltrúar D-listans verið í stöðugu keiluspili, gagnrýnt og gert tortryggilega nánast hverja einustu ákvörðun um samdrátt og niðurskurð, á sama tíma og þeir taka stórt upp í sig um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, lýsa jafnvel yfir gjaldþroti.

Þó fjárhagsstaðan sé slæm er þessi hræðsluáróður þó sem betur fer út úr öllu korti. Meirihluti bæjarstjórnar hefur náð góðum árangri frá bankahruninu, þó enn sé mikið starf óunnið. Munurinn á niðurstöðu ársreiknings 2008 og 2009 er til vitnis um þetta. Í reikningnum 2008 er hallareksturinn rúmar 1350 milljónir, hvorki meira né minna, enda ruku skuldir upp vegna fjármagnsliða þetta árið. Ársreikningur 2009 sýnir um 450 milljóna króna tap. Það er mikið. En batinn frá árinu áður er auðséður hverjum manni sem á annað borð vill sjá nokkuð yfirleitt. Staðan batnar um 900 milljónir! Þessi árangur náðist með aðgerðum meirihluta bæjarstjórnar, sem hlífði sér ekki við því að taka erfiðar ákvarðanir, þó þær væru ekki til vinsælda fallnar, en náði um leið að verja mikilvæga grunnþjónustu.

Nú er svo komið að sköpuð hafa verið skilyrði fyrir eðlilegri fjölgun íbúa á næstu árum, án þess að hún kalli um leið á meiriháttar nýframkvæmdir með tilheyrandi viðbótarkostnaði. Auknar tekjur vegna íbúafjölgunar munu því smátt og smátt lækka skuldir og jafnvægi næst á fáum árum, ef rétt er á spilum haldið.

Öll ósannindin sem D-listinn ber á borð fyrir kjósendur eru gamlar, margþvældar tuggur frá foringjanum, sem aðrir frambjóðendur D-listans hafa nú verið látnir japla á einn ganginn enn. Því er það ánægjulegt að kominn sé til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í Árborg maður sem trúir á sannleikann. Víst verður að telja að Gunnar Egilsson taki félaga sína á framboðslistanum í kennslustund í þeim fræðum. Ekki veitir af, því enginn ærlegur maður leggur lag sitt eða nafn við annað eins.

Gylfi Þorkelsson, fráfarandi bæjarfulltrúi

Fyrri greinRáðherra skoðar fuglafriðlandið
Næsta greinLesið upp úr risastórri Nonnabók