Gylfi Þorkels: Að stytta boðleiðir

Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á blessaðri stjórnsýslunni og það hefur verið í tísku lengi undanfarið að gera lítið úr opinberri stjórnsýslu.

Menn hafa talað fjálglega um óþarfa milliliði, tafir, svifaseint kerfi sem hafi það helst að markmiði að margfalda og mata sjálft sig, en hafi hinsvegar engan skilning á „þörfum markaðarins“ fyrir skjót úrræði og sveigjanleika. Og umræðan hefur gjarnan birst í fyrirlitningu á opinberum starfsmönnum; þeir eru kallaðir „blýantsnagarar“ eða „skrifstofublækur“ á góðum degi, en eitthvað þaðan af verra í annan tíma.

Rót þessa viðhorfs er sú að í gegnum tíðina hefur stórnsýslan verið meira og minna misnotuð, gegnsýrð af spillingu þeirra stjórnmálaafla sem ráðið hafa lögum og lofum svo lengi sem elstu menn muna, og plantað hafa vinum og vandamönnum í „góðar stöður“, burtséð frá faglegu mati á hæfni þeirra til starfans. En hafa ber í huga að það er ekki stjórnsýslan sem á sök á þessu, heldur stjórnmálastéttin.

Til að minnka hættu á spillingu og tryggja rétt borgaranna á faglegri afgreiðslu stjórnsýslunnar á erindum þeirra hafa verið sett lög af ýmsu tagi; stjórnsýslulög, upplýsingalög, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna o.fl. Megintilgangur þessara laga er að tryggja rétt einstaklinga gagnvart hinu opinbera valdi, auka trúverðugleika stjórnsýslunnar og þar með traust borgaranna á stjórnarathöfnum. Ráðherrar bera á móti ábyrgð á stjórnarathöfnum öllum og þegar þeir beita valdi sínu til þess að koma pólitískum vildarvinum og réttfeðruðum fyrir, t.d. í dómskerfinu þvert ofan í álit faglegra valnefnda eins og nýleg dæmin sanna, þá vinna þeir auðvitað þvert gegn markmiðum laganna og hella olíu á eld vantrausts og upplausnar.

Helsta ástæða bankahrunsins var trú stjórnvalda undanfarin 20 ár á það að einkamarkaðurinn leysi alla hluti hraðar, skilvirkar og hagkvæmar en hið opinbera. „Burt með báknið“ sögðu menn kotrosknir, og töldu vísastan veg til hagsældar almennings að leyfa duglegum athafnamönnum að „ganga í verkin“ án afskipta, eftirlits eða óþarfa tafa af hálfu hins opinbera. Þjóðhagsstofnun var lögð niður af því álit hennar hentuðu ekki herra Aðal. Öll sjáum við sorglegar afleiðingarnar af þessum trúarbrögðum.

Opinber stjórnsýsla getur vissulega verið tímafrek, en hún er það oftast vegna þess að gæta þarf almannahagsmuna; gera kröfur um jafnræði borgaranna, fagleg vinnubrögð, að vandað sé til verka, farið að lögum og ekki rasað um ráð fram með skammtímahagsmuni að leiðarljósi. Auðvitað geta svo komið upp tafir af öðrum ástæðum; klaufaskap, sinnuleysi, gleymsku eða vegna annarra mannlegra breyskleika. En mannlegur breyskleiki er víst sérstakur eiginleiki innan stjórnsýslunnar og hrín ekki á „duglegum athafnamönnum“ á einkamarkaði?

Tvö af framboðunum til bæjarstjórnar Árborgar ræddu í kosningababráttunni um að stytta boðleiðir í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Framboðin útskýrðu ekkert hvað þau ættu nákvæmlega við með þessum frasa; þetta virtist hljóma sem englasöngur í eyrum kjósenda, sem kölluðu ekki eftir neinum rökstuðningi. Nú er rétt að minna á að stjórnsýslan í Árborg er mjög hófleg hvað kostnað varðar, skv. úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga, og því varla sparnaðarrök sem liggja að baki kosningaloforðinu um „að stytta boðleiðir“.

Hér er því um að ræða yfirlýsingu þess efnis að vilji sé til þess að ákvarðanir æðstu stjórnenda, þ.e.a.s. kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn, komist viðstöðulaust til þeirra einstaklinga sem vinna verkin. Þetta lítur nú bara vel út, er það ekki? Burt með alla þessa verkstjóra, deildarstjóra, verkefnastjóra og framkvæmdastjóra, sem gera hvort eð er ekkert annað en að naga blýanta, tefja fyrir og klóra sér! Glöggir bæjarfulltrúar vita miklu betur hvar skórinn kreppir og eru fullfærir um að koma hlutunum í kring, eða hvað?

Maður sér það alveg fyrir sér hvað allt gengi hraðar og betur fyrir sig ef bæjarfulltrúarnir myndu sjálfir setjast á skrifborðshornin hjá starfsmönnum, stjórna snjómokstri í beinu símasambandi við gröfukallana eða leiðbeina kennurunum um rútupantanir og skipulagningu skólaferðalaga, án þess að vera að þvæla framkvæmdasviðinu eða fræðslusviðinu í málið. Miklu skilvirkara allt saman?

Á þessum tímapunkti er rétt að minna á nefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem fékk það hlutverk að fara yfir stöðu og ábyrgð stjórnsýslunnar í tengslum við efnahagshrunið, undir stjórn Gunnars Helga Kristinssonar, stjórnmálafræðiprófessors. Hver var helsta niðurstaða nefndarinnar? Í stuttu máli sú að mesta hættan sem að steðjar er hve VEIK íslenska stjórnsýslan er. Fyrir vikið er hún vanfær um að rækja faglegar skyldur sínar og eftirlit. Nefndin telur bráðnauðsynlegt, til að efla tiltrú almennings, minnka hættu á spillingu og gera stjórnsýslunni almennt kleift að sinna nauðsynlegu hlutverki sínu í samfélaginu, að styrkja hana faglega, sameina ráðuneyti, og síðast en ekki síst að skilja betur á milli stjórnsýslu og stjórnmála.

Í Árborg hefur stjórnsýslan ekki farið varhluta af niðurskurði og sparnaði. Meðal annars eru stöður framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs og starfsmannastjóra ómannaðar og hafa verið um hríð. Með því að skera niður og fækka starfsfólki enn frekar í hinni faglegu stjórnsýslu Árborgar eykst álagið á þá sem eftir sitja og í kjölfarið er bein hætta á að mál vinnist hægar og staflarnir hlaðist upp á skrifborðunum. Þetta er mjög varasöm þróun og mikilvægt að halda þessum staðreyndum að fólki sem gagnrýnir hægagang, en krefst um leið „niðurskurðar í yfirstjórn“, eins og reynt hefur verið að telja fólki trú um að sé töfralausn á fjárhagsvanda sveitarfélagsins.

Það getur vel verið að hægt sé að stytta boðleiðir í einhverjum tilvikum. En það er hættulegt að fara gáleysislega og lágmarkskrafa að menn útskýri nákvæmlega hvað þeir eiga við og hvernig þeir ætla að fara að. Ef menn meina með styttingu boðleiða aukin afskipti bæjarfulltrúa af framkvæmd ákvarðana og daglegu amstri stjórnsýslunnar, þá eru þeir á rangri braut.

Miklu nær væri að styrkja faglega stjórnsýslu sveitarfélagsins (og sveitarfélaga yfirleitt með sameiningu, en það væri tilefni til annars pistils) til að útiloka fyrirgreiðslupólitík og vinargreiða sem þrífast best þar sem boðleiðir eru svo stuttar að kjörnir fulltrúar og vinir þeirra hafa tækifæri til að vasast í hlutum sem ekki eru í þeirra verkahring.

Gylfi Þorkelsson

Fyrri greinKallað eftir liðsauka í Landbroti
Næsta greinSvaðbælisá flæddi í morgun