Gunni Egils: Um vangaveltur Helga Haraldssonar

Í aðsendri grein í síðustu viku veltir Helgi Haraldsson upp ýmsum málefnum sem koma við íbúa Árborgar. Hann skrifar þar fjálglega um fjármál, framkvæmdir, skóla- og skipulagsmál.

Um fjármál
Fyrir það fyrsta, ef það hefur farið framhjá Helga, þá hefur fjárhagsstaða sveitarfélagsins batnað ár frá ári síðan 2010. Líkt og hann ætti að vita gerðist það með samhentu átaki starfsmanna sveitarfélagsins og bæjarstjórnar og ber að þakka fyrir slíkt. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafði áður sett Árborg á válista vegna skuldastöðu.

Undir forystu sjálfstæðismanna var ráðist í gagngera og tímabæra endurskoðun á fjármálunum, og velt við hverjum steini í bókhaldinu, hvort sem var tekjuliðir eða útgjöldin. Einnig var ítarlega skoðað hvort sumir væru jafnari en aðrir í sveitarfélaginu. Niðurstaðan varð sú að Árborg hvarf af válistanum líkt og eftir var tekið á landsvísu.

Um framkvæmdir
Hvað varðar meint framkvæmdaleysi þá skal það upplýst fyrirr bæði bæjarfulltrúanum og öðrum að annaðhvort eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast fyrir um 1600 milljónir króna á næstu árum. Bara á þessu ári á að framkvæma fyrir 800-900 milljónir króna. Má þar helst nefna viðbyggingar við Sundhöll Selfoss og Sunnulækjarskóla, endurgerð Tryggvagötu, gerð fráveitu við Geitanes og göngustígs milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.

Auk þessa hefur sveitarfélagið eignast miðbæinn að mestu og stórt land í landi Laugardæla sem það hefur lengi haft augastað á með tilliti til framtíðar skipulags þar.

Um skólamál
Fræðslunefnd sveitarfélagsins hefur á undanförnum misserum unnið mikið og gott starf í að greina og meta þörf fyrir skólahúsnæði innan sveitarfélagsins. Það er ekki síst gert til að bregðast við fjölgun nemenda við skólana þar sem fólk hefur sótt í að flytja hingað til okkar í sveitarfélagið.

Þannig fjölgaði sem dæmi um tæplega þrjátíu nemendur í Sunnulækjarskóla á sl. hausti. Hvernig á að bregðast við því, jú, með því að byggja skólahúsnæði!

Um skipulagsmál
Einnig fetar Helgi þann veg að skrifa um skipulagsmál. Til upplýsingar fyrir Helga þá er skipulagsvaldið á hendi sveitarstjórnar. Nú á sveitarfélagið miðbæinn og hið fallega land við Laugardæli. Okkur liggur ekkert á því að deiliskipuleggja og hvað þá úthluta lóðum við ræmuna við Biskupstungnabraut sem Helgi kallar svo eftir.

Það er engin ástæða að flýta því að breyta Selfossi með því að flytja alla þjónustu út fyrir bæinn. En sú umræða kemur seinna.

Með bestu kveðjum til íbúa Árborgar,
Gunnar Egilsson
Formaður bæjarráðs og formaður framkvæmda- og veitunefndar.

Fyrri greinBúist við stormi syðst á landinu
Næsta greinVísnakvöldin endurvakin í FSu