Gulur september – geðheilbrigði eldra fólks

Í dag vakti Sveitarfélagið Árborg athygli á vitundarvakningu um Gulan september, sem hefur það að meginmarkmiði að efla umræðu um geðrækt og sjálfsvígsforvarnir. Árið 2025 er sérstök áhersla lögð á geðheilbrigði eldra fólks og mikilvægi þess að bregðast við félagslegri einangrun og einmanaleika.

Mig langar að hrósa sveitarfélaginu fyrir að bjóða upp á fría íþróttatíma fyrir 60+, undir handleiðslu íþróttakennara og að boðið sé upp á þá á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri. Það er virkilega vel gert og hefur jákvæð áhrif á þau sem tímana sækja.

Á sama tíma langar mig að hvetja sveitarfélagið til að gera enn betur með því að rýmka opnunartímann í Sundlauginni á Stokkseyri á ný, svo að tækifæri til sundiðkunar sé ögn jafnara á milli byggðarkjarna. Sundlaugin á Stokkseyri er dýrmæt auðlind og hefur eldra fólk sótt hana daglega svo árum skiptir, til að rækta andlega-, félagslega- og líkamlega heilsu sína. Takmörkun á opnunartíma var leið til sparnaðar, en þar sem nú er búið að rétta töluvert úr kútnum, má velta fyrir sér hvort að hægt sé að auka aðgengið, í þágu geðheilbrigðis?

Kæra bæjarstjórn, verkefni ykkar eru mörg, fjölbreytt og krefjandi, en nú er mál til komið að setja heilsu ALLRA íbúa Árborgar í 1. sæti – það er bæði lífsnauðsynlegt og ekki síður hagvæmt, til lengri tíma litið.

Tinna Björg Kristinsdóttir
Íbúi í Árborg

Fyrri greinSkjálfti í Vatnafjöllum
Næsta greinRafmagnslaust á stóru svæði í Bláskógabyggð