Gullregn

Við vitum að fjölmörg sveitarfélög eiga varla fyrir lögbundnum verkefnum sínum. Þau snúa flest að börnum, fötluðu fólki og öðrum viðkvæmum hópum. Almennri velferð.

Ríkisvaldið neitar að láta fé af hendi. Þessu þarf að breyta.

Eðlilegasta leiðin er að sveitarfélögin fá sanngjarnan skerf af virðisaukaskatti.

Þegar ferðafólk kaupir þjónustu úti á landi verður virðisaukinn til þar, en skatturinn fer hins vegar óskertur beint til Reykjavíkur í ríkissjóð.

Þetta er svo augljóslega ranglátt að flestir virðast sjá það. Nema Sjálfstæðisflokkurinn.

Á sama tíma og gullregnið steypist yfir flokksgæðinga fjármálaráðherra og vildarvini stjórnarflokkanna er sveitarfélögum sendur bakreikningur vegna málefna fatlaðs fólks upp á hundruði milljóna króna.

Það er blákaldur veruleiki.

Eitt stærsta verkefni næstu ára er að gera kennslu í leikskólum gjaldfrjálsa til jafns við það sem tíðkast í grunnskólum. Það er ótækt að ungir foreldar, sem eiga margir fullt í fangi með sitt daglega basl, þurfi að greiða gjöld fyrir veru barna sinna í skóla.

Annað mikilvægt verkefni er að æskilegt væri að sveitarfélagið gæti boðið upp á fríar skólamáltíðir Við þurfum ekki að velta lengi fyrir okkur áhrifum á barns- og unglingssál þeirra, sem þurfa mæta með kalda samloku í skólann á meðan skólasystkin njóta heitrar máltíðar á næsta borði. Af því að mamma á ekki fyrir matnum.

Það er líka blákaldur veruleiki víða.

Flest okkar nota bíl, en fjölmörg ekki. Ýmist vegna aldurs, fötlunar eða af öðrum ástæðum.

En veðurfar á Íslandi er eins og það er. Lægðirnar koma í röðum frá hausti og fram á vor, oft þannig að erfitt er að ganga eða hjóla milli húsa.

Mér þykir einboðið að Árborg bæti skipulag og auki þjónustu innanbæjarstrætó mögulega með minni bílum. Allir þurfa jú að komast í búðina og apótekið, en oft er ófært fyrir gangandi og hjólandi. Þetta er einföld og ódýr lausn.

Og það er, vel að merkja, mikilvægt að skoða hvort að borgar sig fyrir sveitarfélagið að eiga litla rútu og hafa þannig fulla stjórn á ráðstöfun hennar.

Þetta og fleira kostar peninga. Þeir fást með sanngjarni hlutdeild í virðisaukaskatti, sterkari tekjustofnum og ekki síst sterkari sveitarfélögum.

Þangað, að börnunum og velferðinni, eigum við að beina gullregninu í stað þess að brenna upp almannafé á bálkesti spillingar við útdeilingu almannaeigna.

Björgvin G. Sigurðsson,
skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinAuglýst eftir áhugasömum bjóðendum
Næsta greinTelur þrif í sundhöllinni ekki eiga heima á borði bæjarráðs