Guðmundur Tyrfingsson ehf 50 ára

Guðmundur fyrir framan mynd af sjálfum sér við Weaponinn en myndin prýðir vegg í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson – GTs ehf fagnar um þessar mundir 50 ára starfsafmæli.

Fyrirtækið er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem er rekið frá Selfossi auk þess sem það er með útibú í Reykjavík. Í dag býður fyrirtækið yfir fjörutíu hópferðabíla af öllum stærðum og gerðum og starfsmenn eru um 50-60 talsins á ársgrundvelli.

Byrjaði á ’53 módelinu af Weapon
Fjallaferðir voru í miklu uppáhaldi hjá Guðmundi og hann ákvað að kaupa sér bíl til að geta unnið við áhugamál sitt og farið í fjallaferðir með hópa. Hann keypti fyrsta bílinn til fólksflutninga 1962. Þetta var Dodge Weapon, árgerð 1953 sem kom frá Sölu varnaliðseigna. Hann var notaður sem sjúkrabíll hjá hernum en Guðmundur breytti honum í hópferðabíl. Hann byrjaði að stunda hópferðir í mars 1963 samhliða annarri vinnu. Þennan bíl seldi hann aftur haustið 1964 og keypti annan Weapon af Varnarliðinu, árgerð 1953. Hann endurbyggði þann bíl einnig og breytti í hópferðabíl. Weapon þennan átti hann í ein tólf ár en þá var hann seldur. Fyrirtækið eignaðist seinna aftur þessa bifreið. Hann var gerður upp og endurbyggður og prýðir nú höfuðstöðvar fyrirtækisins á Selfossi. Hann hefur m.a. komið með jólasveinana úr Ingólfsfjalli til byggða í desember og er svo skreyttur jólaljósum yfir hátíðirnar.

Jólasveinarnir koma í bæinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Minnsta rútuverksmiðja í heimi
Þann 30. september 1969 var fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf formlega stofnað og sama ár fór fyrsta heimasmíðaða rútan á götuna. Árið 1971 sneri Guðmundur sér alfarið að rekstri fyrirtækisins og sama ár byggði hann bragga við Nónhóla á Selfossi. Guðmundur Laugdal Jónsson gekk til liðs við nafna sinn árið 1973. Í bragganum voru smíðaðir fjórtán hópferðabílar til eigin nota auk ýmissa annarra verkefna. Þar voru unnin mörg þrekvirkin og ber þar helst að nefna smíði á 62 farþega rútu árið 1987 sem rétt rúmaðist í húsnæði braggans. Var því fleygt fram að þetta væri sennilega minnsta rútuverksmiðja í heimi.

Árið 1992 var byggð ný aðstaða fyrir bifreiðasmíði og viðgerðir, að Fossnesi 5 Selfossi þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru enn í dag. Fyrirtækið hefur smíðað yfir u.þ.b. 30 nýja bíla frá grunni en auk þess hafa fjölmargir minni bílar verið innréttaðir sem hópferðabílar.

Guðmundur Tyrfingsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umhverfis- og öryggismál á oddinum
Umhverfis- og öryggismál hafa frá upphafi verið fyrirtækinu hugleikin. Guðmundur Tyrfingsson ehf var fyrsta hópferðafyrirtækið til að móta umhverfis- og öryggisstefnu sem er höfð að leiðarljósi í rekstri fyrirtækisins. Árið 2017 eignaðist fyrirtækið fyrstu rafmagnsrútu landsins sem er skref í átt að vistvænni framtíð. Ferðaskipulagning hefur alla tíð fylgt þessum rekstri og hefur þáttur hennar aukist til muna síðustu ár. Fyrirtækið býður upp á ýmsar ferðir til lengri eða skemmri tíma bæði fyrir íslenska og erlenda ferðamenn.

Fyrri greinSundmannakláði í Landmannalaugum
Næsta greinSund og glasalyftingar besta líkamsræktin