Guðrún Péturs: Þjóð til þings

Kosningar til fyrirhugaðs stjórnlagaþings verða einstakar því að Alþingi hefur framselt til þjóðarinnar valdið til að eiga frumkvæði að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Í stað þess að Alþingi skipi menn úr sínum röðum til verksins, er þjóðinni falið að kjósa til þess sérstakt þing. Allir sem eru kjörgengir til Alþingis mega bjóða sig fram (nema fáeinir tilgreindir aðilar eins og forsetinn), án tillits til flokka, hagsmuna eða kjördæma. Landið verður eitt kjördæmi og allir hafa jafnan atkvæðarétt. Hvenær í sögu okkar hefur þetta gerst? Svarið er einfalt: Aldrei!

Stjórnlagaþingið mun semja frumvarp að nýjum stjórnarskipunarlögum – eða stjórnarskrá – sem lagt verður fyrir Alþingi til meðferðar og samþykktar. Margir hafa hnotið um þessa staðreynd og haft á orði að óþarft sé að Alþingi sé að skipta sér af þessu. Því er til að svara, að sú stjórnarskrá sem nú er í gildi kveður skýrt á um hvernig breyta megi stjórnarskránni. Það má aðeins gera með því að Alþingi samþykki breytingarnar tvisvar sinnum og kosningar séu haldnar á milli. Af þessu ákvæði erum við bundin. Hvernig þessu verður háttað í nýju stjórnarskránni er annað mál.

Því meiri eindrægni sem ríkir á stjórnlagaþingi, þeim mun sterkari verður staða frumvarpsins sem það leggur fram og meiri líkur á að Alþingi taki það til meðferðar með litlum eða engum breytingum. Það skiptir höfuðmáli að stjórnlagaþing verði vel skipað. Stuðlum að því og hvetjum gott fólk til að bjóða sig fram.

Mig langar enn fremur að vekja athygli á því að framboðsfrestur til stjórnlagaþings rennur út á hádegi 18.október 2010. Þá þurfa frambjóðendur að hafa sent til landskjörstjórnar gögn um framboð sitt: framboðsyfirlýsingu, kynningarefni ásamt mynd, og lista með nöfnum a.m.k. 30 meðmælenda. Munum að hvert okkar má aðeins mæla með einum frambjóðanda.

Tveir vottar þurfa að staðfesta undirskrift meðmælandans, eins og oft er á opinberum skjölum. Sömu menn mega votta undirskrift margra meðmælenda – og meðmælendur mega sjálfir vera vottar hjá öðrum frambjóðendum.

Upplýsingar um kosningarnar og skjölin sem þarf að fylla út má finna á vefsíðunni www.kosning.is

Hafi menn ekki aðgang að tölvu og neti, má hafa samband við skrifstofu stjórnlagaþings í síma 422-4400.

Dr. Guðrún Pétursdóttir
formaður stjórnlaganefndar

Fyrri greinSelfyssingar í toppbaráttunni
Næsta greinBorgarafundur á Hvolsvelli