Guðmundur Óli: Málblómin blómstra

Mikið finn ég vel, þar sem ég sit í hlýju húsi mínu og björtu í svartamyrkri öskufallsins, hversu gott er að eiga harðduglegt fjölmiðlafólk til að segja fréttir af því sem gerist hverju sinni.

Fjölmiðlafólkið lætur sig ekki muna um að standa úti í 13 vindstigum og blindöskubyl til að sýna hversu veröldin getur nú verið óblíð (og það hart af sér).

Allt er gott um þetta að segja og við veslingar sem sitjum stareygð við skjáina og/eða látum fréttatíma útvarpsins streyma um hlustir okkar, tökum opinmynnt, með velþóknun og þakklæti við því sem að okkur er rétt.

Það er líka afskaplega skemmtilegt að heyra þetta góða fjölmiðlafólk og fleiri fara með móðurmálið okkar og skapa því hvert blómið á fætur öðru.

Í umfjöllun fjölmiðlamanna um aðstæður í Skaftafellssýslum nú í upphafi gossins í Grímsvötnum hafa allnokkur blómin blómstrað. Má þar nefna að hið þekkta fjall, Lómagnúpur, einkennisfjallið okkar í sveitunum milli sanda, hefur nú fengið fleiri og hýrlegri nöfn, svo sem “Ljómagnúpur” og “Blómagnúpur”.

Arnardrangur heitir bær sunnarlega í Landbroti. Helgi bóndi í Arnardrangi býr ekki lengur á þeim bæ, heldur heitir bær hans nú „Arnardrangi“, svo að hann býr nú víst á „Arnardranga“.

Jóhannes bóndi á Herjólfsstöðum í Álftaveri er víst flúinn með allt sitt austur í Álftafjörð skv. umfjöllun morgunútvarps Ruv 24. maí, en þar var hann kynntur sem Jóhannes bóndi á Herjólfsstöðum í Álftafirði. Menn bregðast jú misskjótt við að flýja öskuna, en Jóhannes er sá sneggsti að koma sér fyrir á nýjum slóðum skv. Ruv, en hann bjó í Álftaverinu á sunnudagsmorguninn að því ég best veit og hafði þá ekki í huga að flytja sig neitt. En varla lýgur Ruv, svo enn fækkar í sveitinni okkar.

Þessi blóm eru sýnishorn af því sem hrýtur úr munni illa kunnugs fólks sem er sent að sunnan og er í nokkru uppnámi- ekki kannski að ástæðulausu- og gefur sér ekki tíma til að kynna sér hlutina nógu vel áður en látið er vaða. Sagt var forðum að í ónefndu landi fyrir sunnan sól og vestan mána hafið þeir skotið fyrst og spurt svo. Kannski er það málið.

Þessi blóm vaxa og dafna, vonandi eins og sumarblómin sem fegra garðana yfir hásumarið, en falla svo með fyrstu frostum.

Mér koma í hug orð Jóns Helgasonar í Áföngum:
“Mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði”

Og – úr sama ljóði:
“Jötunninn stendur með járnstaf í hendi
jafnan við Lómagnúp.
Kallar hann mig
kallar hann þig,
kuldaleg rödd og djúp”

Guðmundur Óli Sigurgeirsson, Kirkjubæjarklaustri

Fyrri greinHífandi rok og öskufjúk
Næsta greinGosfundur með ráðherra á Selfossi