Guðrún Högna: Stjórnlagaþing – farsæll grunnur framfara

Við stöndum enn og ný á miklum tímamótum sem þjóð.

Þegar grunnforsendur hafa brugðist er mikilvægt að læra af því sem hefur farið úrskeiðis og byggja enn sterkari stoðir um velferð og vöxt okkar samfélags. Stjórnarskráin er sú grunnstoð.

Ný tegund lýðræðis er að festa rætur. Lýðræði, sem byggir á upplýstri þátttöku okkar allra að málum sem varða okkur öll. Réttlát og fagleg aðkoma Íslendinga að grunnreglum þjóðarinnar er forsenda þess að byggja farsælt samfélag þar sem allir fá sín notið í skjóli öruggrar og skynsamlegrar umgjarðar. Gerum þessa tilraun að farsælu nýju upphafi.

Við erum jafnframt að upplifa mikla vitundarvakningu um grundvöll íslenskrar samfélagsskipunar og stjórnskipulags. Við ætlum að skilja betur og sammælast um grunngildi okkar, þýðingu lýðræðis, skilja betur hvernig vald sprottið frá þjóð og hvernig þú og ég höfum bein áhrif á framgang mála. Við gætum orðið fyrirmynd annara þjóða við að fanga tækifæri sem þekkingarsamfélagið býr að á upplýsingaöld.

Ég hef brennandi trú á nútíð og framtíð Íslands og ber ómælda virðingu fyrir þeirri mikilvægu umgjörð sem Stjórnarskráin skapar til góðra verka, skilvirkrar valddreifingar, réttlætis og farsældar þjóðarinnar.

Reynsla mín við að leiða saman fólk um framtíðarsýn og árangur, þekking mín á sviði stefnumörkunar og leiðtogafræða og hæfni við að leysa úr læðingi frammistöðu mun nýtast við mótun betri Stjórnarskrár. Ég mun þjóna þinginu af heilindum, krafti, ábyrgð, fagmennsku og gleði. Ég geng til verks hlutlaus, með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Ég mun starfa í anda víðsýnis og virðingar fyrir skoðunum, sögu okkar og staðreyndum.

Ég hvet þig til að kynna þér Stjórnarskrá Íslands, hugleiða hvernig grunn þú villt byggja okkar nútíð og framtíð á og taka þátt í að skapa samfélag sem einkennist af jafnrétti, virðingu, ábyrgð og skilvirkni. Kynntu þér mína sýn hér: www.gudrunhogna.is og vertu með í umræðunni hér: http://www.facebook.com/gudrunhognadottir. Værir þú tilbúin að virkja mitt framlag með því að setja nafn mitt í eitt af efstu sætunum í kosningum til Stjórnlagaþings?
Stjórnarskrá Íslands: um okkur, fyrir okkur og frá okkur.

Guðrún Högnadóttir 6219.