Guðný Ingibjörg: Ég var bara að leika

Leikskóladagurinn er búinn og foreldrarnir komnir að sækja börnin sín í leikskólann. Það er spjallað á leiðinni heim um daginn og veginn og hvernig dagurinn hafi verið.

Mjög líklegt er að svar barnanna hafi verið á þá leið að þau hafi „bara“ verið að leika. Hvað voru þau þá að gera í leikskólanum? Mörg hver hafa farið í málörvun af einhverju tagi, verið úti í öllum veðrum, farið í hreyfingu í sal, farið í listastofu, borðað og lagt sig og þannig mætti lengi telja en lengst af hafa þau verið að leika.

Leikurinn fer fram bæði úti og inni. Barnið getur leikið eitt og gerir það til að byrja með því þroski þess er á þeim stað. Það fer svo smám saman að leika við önnur börn og fara í hlutverk og þegar leikurinn er kominn á það stig fara fram mikil samskipti, það fer fram málrækt, hreyfing, bæði grófhreyfing og fínhreyfing.

Í leiknum getur allt gerst, barnið getur verið það sem það vill og æft sig í margs konar hlutverkum og ímyndunarafl barnsins fær að njóta sín. Í leiknum getur barnið verið pabbi, mamma, litla barnið, stóra barnið, afi eða amma, batman, prinsessa, dreki, hundur, köttur og þannig er endalaust hægt að telja. Í mömmuleiknum er t.d. farið í vinnuna, eldaður matur, börnunum skutlað í skólann og farið í búðina. Í búðarleiknum lærir barnið líka margt. Það er búið að ákveða áður en farið er í búðina hvað á að kaupa og jafnvel skrifa það á miða. Í búðinni þarf að finna vöruna, tala við búðarmanninn, standa í röð, borga vöruna og fá kannski til baka.

Í leikjum sem þessum lærir barnið mjög margt, það eiga sér stað mikil samskipti þar sem reynir á málþroska. Barnið er búið að skrifa innkaupalista og þar með hefur það þjálfað fínhreyfingar, málþroska og hljóð og stafi. Grófhreyfingar eru einnig þjálfaðar og ímyndunaraflið er í stöðugri notkun. Barnið lærir að taka tillit til annarra í gegnum leikinn og hlusta á skoðanir annarra. Það lærir jafnframt að koma skoðunum sínum á framfæri í gegnum leikinn. Þetta gengur kannski ekki alltaf snuðrulaust fyrir sig og þá er það hlutverk leikskólakennarans að leiðbeina og styðja barnið í leiknum. Barnið vinnur síðan úr upplifunum sínum og reynslu í gegnum leikinn.

Til að opna þennan töfraheim barna sem leikurinn er verður opið hús í leikskólanum frá kl. 13:00-15:30 föstudaginn 5. febrúar 2016 í tilefni af Degi leikskólans.

Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir,
aðstoðarleikskólastjóri Jötunheima

Fyrri greinSveitarfélagið mögulega skaðabótaskylt
Næsta greinGnúpverjar unnu eftir spennandi keppni