Gísli Tryggva: Réttindi landsbyggðar stóraukin

Góð þátttaka kjósenda á landsbyggðinni skiptir miklu máli í þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarp stjórnlagaráðs laugardaginn 20. október nk.; hvers vegna skrifa ég það?

Meiri landsbyggðarréttindi…
Ástæðan er sú að með nýjum VII kafla í væntanlegri stjórnarskrá um sveitarfélög (sjá nánar á www.sans.is) eru réttindi landsbyggðarinnnar aukin. Málsvarar landsbyggðar í stjórnlagaráði völdu þennan kost fremur en að berjast lengur gegn jöfnum atkvæðisrétti allra kjósenda sem hefur klofið þjóðina í heila öld og endurtekið orðið tilefni heiftúðlegra stjórnmálaátaka, svo sem 1931, 1942 og 1959.
… á kostnað Reykjavíkurvaldsins
Aukin réttindi sveitarfélaga og þar með landsbyggðarfólks – á kostnað miðstjórnarvaldsins í Reykjavík – eru þó ekki aðeins sárabætur fyrir tapaðan slag fyrir ójöfnum atkvæðisrétti sem engu hefur skilað landsbyggðinni; um er að ræða tilfærslu valds, verkefna og tekna til landsbyggðarinnar – frá Stjórnarráðinu og Alþingi í höfuðborginni – sem er mun betra að hafa heima í héraði heldur en að hafa fleiri þingmenn til að senda suður til að sækja þangað peninga og jarðgöng.
Þrjár leiðir auka rétt landsbyggðar
Þrjú meginatriði eru í VII kafla frumvarps að nýrri stjórnarskrá sem auka réttindi landsbyggðarinnar til þess að ráða eigin málum – tekjuregla (2. mgr. 105. gr.), samráðsskylda (108. gr.) og nálægðarregla (106. gr.). Sama gildir vitaskuld um sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en þar er breytingin annars eðlis þar sem völdin færast aðeins um 200 m, frá þinghúsinu við Austurvöll (eða Stjórnarráðinu) í ráðhúsið við Tjörnina.
Skal nú tæpt á þessum þremur atriðum.
Tekjur fylgi verkefnum
Mikilvægust er að mínu mati sú regla að sveitarfélög “skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum.” Um þetta hefur verið deilt milli fulltrúa sveitarstjórna og handhafa fjárveitingarvaldsins árum – nú síðast á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í lok september sl. Þótt ég hefði viljað ganga enn lengra í skiptingu fjárveitingarvalds á milli ríkis og sveitarfélaga er hér um að ræða eina stærstu réttarbót Íslendinga frá heimastjórn 1904.
Samráðsskylda
Stjórnlagaráð var í öðru lagi sem endranær á endanum einhuga um eftirfarandi reglu – að gefnu tilefni:
“Samráð skal haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.”
Ekki þarf að fjölyrða um þýðingu þessarar reglu enda hafa handhafar stjórnvöld iðulega verið sökuð um ónógt samráð við sveitarfélög og þar með fulltrúa landsbyggðarinnar.
Nálægðarregla
Síðast en ekki síst sammæltist stjórnlagaráð um að leggja til við þjóð og þing að “þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði“ skuli vera á hendi sveitarfélaga “eða samtaka í umboði þeirra.” Ekki er með öðrum orðum skylt að öllum rekstri sé stýrt úr ráðhúsi bæjarins – fremur en þinghúsinu í höfuðborginni, sem er auðvitað meginbreytingin; sveitarstjórn getur ákveðið að fela rekstur nærþjónustu á borð við skóla eða slökkvilið landshlutasamtökum sveitarfélaga, byggðasamlagi, samvinnufélagi, notendafélagi eða sjálfseignarstofnunum sem áratugareynsla er komin á í rekstri dvalarheimila aldraðra.
Falsrök um ofurkjörsókn
Þótt góð kjörsókn sé mikilvæg – ekki síst fyrir landsbyggðina af ofangreindum ástæðum – vil ég vara við falsrökum sem komið hafa fram og munu koma fram um að miða eigi kjörsókn nú við nær 100% þátttöku og samþykki við “lýðveldisstjórnarskránni” við slit sambands okkar við Danmörku 1944. Þá var eina breytingin sú að í stað Danakonungs sem þjóðhöfðingja yfir Íslandi kom þjóðkjörinn “forseti” í staðinn. Engar aðrar efnisbreytingar voru gerðar – enda var það beinlínis óheimilt. Æskilegt væri að kjörsókn yrði góð – helst meiri en 37% kjörsókn í flókinni stjórnlagaþingskosningu fyrir tveimur árum og gjarnan betri en meðaltal þjóðaratkvæðagreiðslna á fyrri hluta síðustu aldar, 47%.
Mætið laugardaginn 20. október nk. – fyrir framtíðina.
Gísli Tryggvason, lögfræðingur og fulltrúi í stjórnlagaráði 2011