Gísli Hjartar: Stjórnarskráin fylgi þjóðinni inn í framtíðina

Ég er einn hinna fjölmörgu sem býð mig fram til stjórnlagaþings.

Um leið og umræðan um stjórnlagaþing fór af stað kítlaði það mig. Þetta leit strax út eins og stórt, spennandi og jafnframt krefjandi verkefni sem ég gæti haft gaman af að fá að takast á við. Ég ákvað því án ráðfæringa við aðra að slá til og bjóða mig fram. Ekki nóg með að ég hafði áhuga á að takast á við málefnið heldur líka vegna þess að ég er þarna að bjóða fram nafn mitt, mín sjónarmið og hugsjónir óháð einhverju flokkamynstri. Personukjör á einn eða annan hátt hefur lengi verið eitt af mínum áhugamálum, og því ég til í að leggja nafn mitt í þennan hatt. Hver útkoman verður kemur svo bara í ljós.

Ég held að stjórnalagaþingið sé tímabært. Það er kominn tími á heildarendurskoðun á þessum tæplega 150 ára grunni sem stjórnarskráin er. Fólk má samt ekki halda að stjórnarskráin okkar sé alveg vita vonlaust plagg, þar eru hlutir sem virka ágætlega. Ég er heldur ekki að segja að það eigi alltaf að vera að hræra í henni.

Mannréttindi, tjáningar- og lýðfrelsi eiga að vera í forgrunni í stjórnarskránni. Það þarf líka að skoða hluti eins og þrískiptingu valdsins, sem og hlutverk og ábyrgð æðstu stjórnenda. Ég er hlynntur beinna lýðræði, vill nota t.d. þjóðaratkvæðagreiðslur. Eignarhald á náttúruauðlindum þjóðarinnar á að mínu mati að vera á hreinu og það á að liggja hjá þjóðinni. Embætti forsetans munu menn eflaust velta vel fyrir sér, en ég er ekki á þessari stundu viss um að leggja eigi embættið niður. Mér finnst líka mikilvægt að menn hafi á hreinu heimildir Íslands til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og að ef til stórra ákvarðanna kemur þar þá liggi valdið hjá þjóðinni.

Ég hef nokkuð lengi haft áhuga á samfélagsmálefnum. Hef verið nokkuð ófeiminn við að láta skoðanir mínar í ljós, eins og fólk hefur kannski séð á bloggi mínu, fosterinn.blog.is.. Það getur verið erfitt í svona litlu samfélagi eins og við búum í, sérstaklega hér í Eyjum, en ég hef reynt að temja mér það að gera þetta á málefnalegan hátt en ekki ráðast á persónur og níða af þeim skóinn, eða eins og menn segja í fótboltanum fara frekar í boltann en manninn. Ég er þessa dagana að lesa mér til og ræða við fólk til að heyra aðra vinkla á hinum og þessum málum. Maður verður sífellt að vera að víkka sjóndeildarhringinn því það er næsta víst að ég hef ekki lausnirnar á öllu, né endilega svörin, en ég er meira en lítið til í að hlusta á sjónarmið næsta manns og ræða málin tel það reyndar einn af mínum kostum.

Þó mikilvægt sé að skýra stjórnarskrána gerist ekkert nema við breytum hugarfari okkar. Við þurfum að temja okkur sjálfsgagnrýni, aga og virðingu fyrir reglum og umfram allt fyrir hvort öðru. Það er lykilatriði er að sem breiðastur hópur komi að endurskoðun stjórnarskrárinnar því þannig endurspeglast þjóðarviljinn. Við erum öll á sama báti, ekki satt, og ef allir leggjast á árarnar verður útkoman góð fyrir Ísland.

Við hljótum að vilja að stjórnarskráin staldri ekki bara við í nútímanum heldur fylgi þjóðinni inn í framtíðina.

Með bestu kveðjum og von um þinn stuðning í eitt af efstu sætunum þann 27. nóv. nk.

Gísli Hjartar – 3612
Vestmannaeyjum