Í greinargerð með fjárhagsáætlun Árborgar 2026–2029 er dregin upp mynd af „áframhaldandi bata“, „ábyrgum rekstri“ og „auknum ávinningi fyrir íbúa“. Þetta hljómar vel. Vandinn er sá að þessi frásögn stenst enga skoðun þegar hún er borin saman við tölurnar í áætluninni sjálfri. Hún er villuljós, tendrað til að draga upp aðra mynd en raunin er í sveitarfélaginu að loknu kjörtímabilinu.
Byrjum á kjarnanum. A-hluti sveitarfélagsins – daglegur rekstur skóla, leikskóla, félagsþjónustu og stjórnsýslu – er rekinn með um 615 milljóna króna halla árið 2025 og gert er ráð fyrir að hallinn verði um 495 milljónir króna árið 2026. Þrátt fyrir þetta er rekstrarvandi A-hlutans hvergi nefndur í greinargerðinni. Í staðinn er vísað í samanlagða niðurstöðu A- og B-hluta, þar sem veitur og önnur fyrirtæki halda heildarniðurstöðunni jákvæðri.
Þetta er ekki smáatriði. Þetta er meðvituð og villandi framsetning. Gaslýsing á kjósendur korteri fyrir kosningar og uppgjör á kjörtímabilinu.
1500 milljónir í viðbótarskatta á íbúa
Í greinargerðinni er talað um „skattalækkanir“ og „ávinning fyrir heimilin“. Þar er hins vegar ekkert minnst á 10% álag á útsvarstekjur eða um 1500 milljónir vegna ársins 2024, sem íbúar þurftu að greiða 1. júní 2025. Sú skattahækkun var ekki smávægileg og hún var lykilforsenda þess að reksturinn rétti sig af á pappírnum ásamt miklum hækkunum á gjaldskrám sveitarfélagsins og hærri fasteignagjöldum á sama tíma. Það passar einfaldlega ekki inn í þá fallegu mynd sem dregin er upp – og er því látið liggja á milli hluta.
Nú eru boðaðar skattalækkanir kynntar sem ávinningur fyrir heimilin. Þær nema um 300 milljónum króna samtals, sem er aðeins um fimmtungur af þeirri tekjuaukningu sem kom með viðbótarálaginu.
Þá er mikilvægt að hafa eitt í huga: lækkun fasteignagjalda er fyrst og fremst leiðrétting á móti hækkun fasteignamats, ekki raunveruleg skattalækkun. Þar sem fasteignamat hækkaði ekki jafnt í sveitarfélaginu, dugar þessi lækkun sum staðar alls ekki til og fasteignagjöld lækka því ekki hjá öllum – hjá sumum hækka þau jafnvel áfram.
Í greinargerðinni er talað um „skattalækkanir“ og „ávinning fyrir heimilin“. Þar er hins vegar ekkert minnst á 10% álag á útsvarstekjur ársins 2024, sem íbúar þurftu að greiða 1. júní 2025.
Fjárfestingar eru kynntar sem merki um styrk og árangur. Langur listi af framkvæmdum er talinn upp, en hvergi er fjallað um rekstraráhrif þeirra. Engin umræða er um aukinn kostnað, viðhald, mannafla eða álag á A-hlutann. Fjárfestingar eru sýndar sem sjálfstæð gæði, án þess að tengja þær við reksturinn sem þarf að standa undir þeim til framtíðar.
Sama má segja um skuldir. Greinargerðin leggur áherslu á að skuldahlutföll séu innan viðmiða og fari lækkandi. Það sem ekki er sagt er að heildarskuldir í krónum eru áfram mjög háar og lausafjárstaða þröng. Hlutföll eru notuð til að fegra myndina, á meðan raunverulegt umfang skulda er falið í töflum.
Þegar allt þetta er lagt saman blasir við einföld niðurstaða: Greinargerðin er kynningarefni og kosningaáróður sem er kostaður af skattfé íbúanna, ekki heiðarleg greining á stöðu sveitarfélagsins.
Íbúarnir eiga betra skilið
Tölurnar segja að kjarnarekstur Árborgar sé veikur, að hann hafi þurft mikla skattahækkun til að haldast á floti og að áætlanir byggi á bjartsýnum forsendum um áframhaldandi aðhald og hagvöxt. Orðin segja hins vegar að allt sé á réttri leið.
Íbúar eiga skilið betra en fallega orðræðu. Þeir eiga skilið að tölurnar fái að tala skýrt – líka þegar þær segja eitthvað sem er óþægilegt fyrir D-listann og þá staðreynd að þeim hefur lánast illa að stilla af fjármál sveitarfélagsins í kjölfar vaxtaverkja fádæma fjölgunar íbúa og þá uppbyggingu sem henni fylgdi.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Sveitarfélaginu Árborg

