Fyrir börnin okkar!

Íbúum í sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 3,7% síðastliðið ár og reikna má með því að þeim muni halda áfram að fjölga næstu árin og því er nauðsynlegt að bregðast rétt við til að mæta þeirri íbúafjölgun. Í því samhengi er mikilvægt að tryggja að stjórnsýslan geti sinnt þörfum allra íbúa eins og best verður á kosið hverju sinni. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er markmið hennar að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi auk þess að stuðla að velferð íbúa.

Félagsþjónustan sinnir málefnum viðkvæmasta hóps sveitarfélagsins og má þar nefna börn, eldri borgara, fatlað fólk og aðra þá sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Mikilvægt er að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur ásamt því að tryggja það að allir sem leita til félagsþjónustunnar fái þá ráðgjöf og aðstoð sem þeir þurfa á að halda.

Farsæld í þágu barna
Nýverið voru samþykkt lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem færa félagsþjónustunni mikilvæg verkfæri í hendur til að tryggja hnökralausa þjónustu við börnin okkar. Að því sögðu þá má gera ráð fyrir auknum verkefnum hjá starfsfólki sveitarfélagsins. Félagsþjónusta Árborgar býr yfir gífurlegri reynslu ásamt dýrmætum mannauði á öllum sviðum og mikilvægt að við höldum í þá reynslu og byggjum ofan á hana. Sér í lagi þar sem verkefnin framundan eru bæði söguleg og mikilvæg í þeim skilningi að við ætlum í fyrsta skipti að taka almennilega utan um börnin okkar og mæta þeim þar sem þau eru með verkfærum til að búa til sterka og sjálfstæða einstaklinga til framtíðar. Því þurfum við að vera vakandi yfir fjölgun mála í félagsþjónustunni og halda áfram að fjárfesta í mannauðnum okkar og þeirri
þekkingu sem þar býr.

Með farsældarlögunum er verið að tryggja börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þvert á öll kerfi. Markmið laganna er að hinir ýmsu hlutar kerfisins starfi betur saman og þjónustan verði fumlaus sama á hvaða stigi hún er veitt eða innan hvaða stofnunar. Öll kerfi tali saman með það einbeitta markmið að grípa barnið strax og þannig tryggja að barnið sé hjartað í kerfinu líkt og kemur fram í skýrri sýn Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra um framtíð barna í samfélaginu okkar. Þau eru framtíðin og við ætlum að fjárfesta í framtíðinni!

Reynslan er dýrmæt
Þegar við ráðumst í stórar breytingar þá skiptir þekkingin öllu máli og til þess að félagsþjónustan geti sinnt starfi sínu eins og þeim ber skylda til samkvæmt lögum þá er mikilvægt að við tryggjum starfsmönnum viðunandi starfsumhverfi. Við í Framsókn gerum okkur fyllilega grein fyrir mikilvægi öflugrar félagsþjónustu í hverju
sveitarfélagi fyrir sig og viljum standa vörð um hana og byggja enn frekar undir þá þekkingu sem þar býr. Við viljum efla félagsþjónustuna í Árborg með það að markmiði að hver og einn íbúi blómstri í samfélaginu, óháð því hvaða áskoranir þeir búa við.

Ellý Tómasdóttir
2. sæti á lista Framsóknar í Árborg
Inga Jara Jónsdóttir
19. sæti á lista Framsóknar í Árborg

Fyrri greinEflum Hrunamannahrepp með drífandi fólki
Næsta greinVið viljum efla grunnstoðir sveitarfélagsins